138. löggjafarþing — 34. fundur,  28. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[20:52]
Horfa

Ólöf Nordal (S) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Það er óskaplega dapurlegt að hæstv. forseti hafi kosið að efna hér til óvinafagnaðar. Það er afskaplega dapurlegt að hæstv. forseti telji að það sé til framdráttar Alþingi Íslendinga og þeim verkefnum sem eru fram undan að fara í stríð við stjórnarandstöðuna. Það er ótrúlegt að hæstv. forseti kjósi ofan í kaupið að rangtúlka og snúa út úr þingsköpum Alþingis. Auðvitað er það ekki í samræmi við anda laganna að á óreglulegum fundardegi skuli menn halda fundi heilu sólarhringana. Eða er það túlkun hæstv. forseta (Gripið fram í.) að á svokölluðum óreglulegum fundardegi megi halda fundi sólarhringum saman? Hvernig er það, hvaða ákvæði þingskapanna gilda þá ekki um þennan ólöglega fund? (Gripið fram í.) Hvaða ákvæði eru það?

Mér finnst að hæstv. forseti verði að íhuga stöðu sína mjög alvarlega þegar svona er komið fram við stjórnarandstöðuna. (Forseti hringir.) Þetta háttalag mun ekki ganga.