138. löggjafarþing — 34. fundur,  28. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[21:16]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Til að svara spurningu hv. þm. Gunnars Braga Sveinssonar verð ég að segja að ég man ekki eftir því að ágreiningur um lagalega túlkun að þessu leyti hafi komið upp. Ég hef setið á þingi í rúm sex ár, sat þar af fjögur ár sem varaforseti þingsins og hef upplifað ýmsar deilur um þingsköp. Það er ekkert vafamál í því að ég man ekki eftir deilu af þessu tagi með þessum formerkjum en ég vísa líka til þess að það skiptir kannski ekki endilega svo miklu máli. Við erum að tala um lagaákvæði sem var samþykkt árið 2007. Þegar við deilum um túlkun á því leitum við í lögskýringargögn sem liggja fyrir, hafa verið kynnt í ræðustól og eru öll á einn veg og það er okkar leið til að komast að niðurstöðu. Eins og ég sagði í andsvörum áðan við hv. þm. Birgittu Jónsdóttur tel ég að það sem hæstv. forseti ætti að gera við þessar aðstæður er auðvitað að gera a.m.k. hlé á fundi til að reyna að leiða þetta mál til lykta þannig að við þurfum ekki að ræða þetta í allt kvöld. Ég held að það væri langskynsamlegasta niðurstaðan. Ég held að margar af þeim deilum sem við getum átt í ræðustól gætum við átt utan salar um túlkun lagaákvæða.

Auðvitað hefur þessi deila okkar um túlkun lagaákvæða ákveðið gildi í sambandi við túlkun ákvæðisins í framtíðinni þannig að kannski er ágætt að þetta er allt fært til bókar og fer inn í þingtíðindi. Varðandi það hins vegar hvernig okkur miðar áfram í þingstörfunum er þetta óskynsamleg leið til að nálgast málin. Ég bið hv. þm. Gunnar Braga Sveinsson að taka sem þingflokksformaður (Forseti hringir.) upp á því að setja sig í samband við hæstv. forseta þingsins og koma þessum sjónarmiðum á framfæri.