138. löggjafarþing — 35. fundur,  30. nóv. 2009.

tilhögun þingfundar.

[10:31]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Hér er farið fram á heimild til að funda fram á kvöld. Þannig hafa fundir Alþingis verið að undanförnu að það hefur verið fundað fram á kvöld, fram að miðnætti og jafnvel fram yfir miðnætti. Ég tel að nauðsynlegt sé að reyna að koma betra skipulagi á störf þingsins. Fram undan er mjög erfiður tími í þinginu og ég tel að það sé rétt að við hefjum daginn með því að kallaðir séu saman þingflokksformenn fyrir upphaf þingfundar, að gengið sé frá því hvernig fyrirkomulagið verður, t.d. að tryggja að ekki verði fundað fram yfir miðnætti, að ekki verði fundað 1. desember og ýmislegt annað. Það er betra að reyna að ná sátt um það hvernig við störfum í þinginu, hvernig við reynum að koma fram málum en að keyra þetta í gegn með því ofbeldi sem stjórnarmeirihlutinn hefur gert ítrekað, aftur og aftur. Reyndu nú, frú forseti, að ná góðri sátt (Forseti hringir.) um það hvernig við vinnum saman á hinu háa Alþingi.