138. löggjafarþing — 35. fundur,  30. nóv. 2009.

yfirlýsingar breskra og hollenskra ráðherra.

[10:50]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Það er í sjálfu sér ekkert nýtt í því að ýmis ummæli og skýrslur hafa komið fram bæði á undangengnum árum og síðan eftir að efnahagshrunið hófst haustið 2008 þar sem menn tala um veikleika og galla innstæðutryggingarkerfisins. Það má finna ótal ummæli og skýrslur í þeim efnum og þær hafa verið reiddar fram og ræddar eins og Treasury Committee-skýrslan og ummæli sem hér var vitnað til áðan.

Þess vegna höfum við reynt og gerum enn að halda til haga þessari lagalegu óvissu og hún hefur ekki verið gefin eftir af Íslands hálfu. Hún er hér í lögum og í frumvarpi sem er til umræðu, hana er að finna af okkar hálfu í sameiginlegri yfirlýsingu fjármálaráðherra ríkjanna frá því í október. Og í svarbréfi forsætisráðherra til Gordons Browns er þessu enn haldið skýrt til haga vegna þess að við viljum halda vakandi möguleikunum og rétti okkar til þess að láta með einhverjum hætti á þetta reyna inni í framtíðinni ef til þess skapast tækifæri og/eða ef aðrar þær breytingar kunna að verða á þessu regluverki sem gera okkar sanngirniskröfur í þessum efnum, að þessi þáttur málsins fáist á hreint, að þessu verði til haga haldið. Það hefur verið gert og að sjálfsögðu af hálfu okkar talsmanna, ég geri ráð fyrir frá byrjun. Ég þekki það auðvitað ekki hvernig á þessu var haldið nákvæmlega af hálfu þáverandi stjórnvalda í október, nóvember og desember 2008 en ég veit fyrir víst að frá og með 1. febrúar var þetta að sjálfsögðu endalaust haft uppi á borðum. Niðurstaða þess máls var sú, eins og kunnugt er, að við höfum engan stuðning fengið við það nokkurs staðar frá að okkar sjónarmið í þessum efnum væru tekin gild í þeim skilningi að við kæmumst undan því að klára þetta mál og semja um það með einhverjum pólitískum hætti.

Ég get síðan upplýst það að ég tók þetta upp á sameiginlegum fundi fjármálaráðherra EES og EFTA-ríkjanna, ECOFIN-fundinum, núna í nóvember og (Forseti hringir.) hélt þar enn til haga þessu viðhorfi Íslands að þetta gallaða samevrópska regluverk væri til staðar og okkur fyndist það hafa verið á okkar kostnað og án eðlilegrar evrópskrar samstöðu um það (Forseti hringir.) sem verið væri að leysa þetta mál.