138. löggjafarþing — 35. fundur,  30. nóv. 2009.

Icesave.

[11:02]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S):

Forseti. Ég vildi gjarnan eiga orðastað við hæstv. fjármálaráðherra í framhaldi af þeirri fyrirspurn sem hv. þm. Siv Friðleifsdóttir kom með áðan varðandi ummæli hollenska fjármálaráðherrans um innstæðutryggingarkerfi Evrópusambandsins. Eins og hér hefur verið upplýst hélt þessi mæti einstaklingur ræðu í byrjun mars á þessu ári sem hefði mátt ætla að kæmi frá íslenskum þingmanni eða nokkrum þeirra íslensku lögspekinga sem hafa tjáð sig um hið svokallaða Icesave-mál og stöðu Íslendinga í þeirri deilu gagnvart öðrum þjóðum. Þar voru að mínu mati færð fram ágætisrök fyrir því hvers vegna íslenskir skattgreiðendur ættu ekki að taka á sig ábyrgð af skuldbindingum einkafyrirtækja þar sem þau höfðu sett útibú í útlöndum á laggirnar. Það kom fram áðan í máli hæstv. ráðherra í svari við fyrirspurn hv. þm. Sivjar Friðleifsdóttur að það væri mjög verðmætt að eiga þessi ummæli á prenti, sérstaklega ef við værum að horfa til framtíðar.

Það má örugglega gleðjast yfir því að eiga þetta á prenti en mig langar að forvitnast um það hjá hæstv. ráðherra með hvaða hætti íslensk stjórnvöld hermdu þessi ummæli upp á fjármálaráðherra Hollands. Ég vil inna hæstv. ráðherra eftir því hvernig hollensk yfirvöld svöruðu fyrirspurn íslenskra stjórnvalda í þessu gríðarlega mikla máli því að hér er mikið undir. Það er mjög verðmætt til framtíðar litið að heyra hver viðbrögð fjármálaráðherra Hollands voru við (Forseti hringir.) sjálfstæðri eftirgrennslan íslenskra stjórnvalda við þessari afstöðu hans.