138. löggjafarþing — 35. fundur,  30. nóv. 2009.

úrskurður vegna Vestfjarðavegar.

[11:12]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Ég vildi hafa aðeins hraðari handtök í þessu máli en hæstv. umhverfisráðherra sem tók fimm mánuði að komast að þeirri niðurstöðu að niðurstaða Skipulagsstofnunar ætti að gilda. Ég verð að segja eins og er að það kemur mér út af fyrir sig ekkert óvart. Ég hafði ekki gert ráð fyrir öðru en að hæstv. umhverfisráðherra kæmist að þessari niðurstöðu. En það er hins vegar mjög ámælisvert að það skuli hafa tekið allan þennan tíma, fimm mánuði, að komast að niðurstöðu í ekki stærra máli en hér er um að ræða. Það er auðvitað ekki líðandi að það skuli verða eins konar plagsiður að þegar kemur að málum, sem snúa að þessum hluta Vegagerðarinnar í landinu sem eru einna brýnust, skuli alltaf vera brugðið fæti með einhverjum hætti fyrir allt sem þar þarf að gera.

Nú hins vegar er komin niðurstaða og ber að fagna því. Þá beinast auðvitað sjónir að hæstv. samgönguráðherra sem núna þarf að bretta upp ermarnar og fara að hefjast handa í samræmi við það sem greinilega kom fram að væri vilji þingmanna í sölum Alþingis, við útboð á þessum vegum og sjá hvaða leiðir eru mögulegar í þeim efnum. Það eru ýmsar (Forseti hringir.) leiðir mögulegar og hæstv. ráðherra þarf vinda sér í það verkefni.