138. löggjafarþing — 35. fundur,  30. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[11:28]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir þessar spurningar sem eru mjög langar og erfitt að svara í tveggja mínútna andsvari. Ég get ekki skýrt af hverju hæstv. ríkisstjórn er tilbúin til að leggja þessar byrðar á íslenska þjóð. Ég geri ekki lítið úr því að þetta mál er stórt og vandmeðfarið og því þarf að lenda á einhvern hátt. Það gerðum við í sumar með fyrirvörum Alþingis og þar takmörkuðum við þær byrðar sem leggja ætti á íslenska þjóð með því að takmarka ríkisábyrgðina bæði í tíma og að umfangi. Það sem ég er mest ósátt við er að ekki var farið eftir þeim lögum. Það var ekki farið með lögin frá Alþingi og sagt eins og stendur í þeim lögum að Bretum og Hollendingum skyldu kynntir þessir fyrirvarar og ábyrgðin tæki ekki gildi fyrr en þeir hefðu samþykkt þá.

Miðað við þessa einu fundargerð sem ég hef aðgang að í þessum gögnum var það ekki gert. Þá fannst mér tónninn vera meira þannig að verið væri að afsaka það að ríkisstjórnin hafi ekki getað komið ríkisábyrgðarfrumvarpinu óbreyttu í gegn en í raun reynt að finna leiðir til að fara fram hjá verkefninu.

Ég tel hæstv. ríkisstjórn ekki hafa haft neina trú á verkefninu og ekki neina trú á fyrirvörunum. Ég hef engar skýringar aðrar en þær að eitthvað annað hljóti að búa að baki og ég leyfi mér að spyrja þessarar spurningar: Getur verið að ríkisstjórnin hafi fullvissað viðsemjendur okkar þegar skrifað var undir 5. júní að þetta yrðu lyktir málsins? (Forseti hringir.) Hún hefur reynt af öllum lífs- og sálarkröftum að haga málum þannig að sá samningur fylgi.