138. löggjafarþing — 35. fundur,  30. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[11:30]
Horfa

Margrét Tryggvadóttir (Hr) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir ágæt svör. Hún svaraði reyndar ekki einni spurningu minni sem sneri að því hvort við gætum greitt þetta. Ég held að það sé alveg klárt mál að við verðum að borga vexti í næstu áratugi og það verða færri til þess vegna þess að hér er skollinn á fólksflótti og svo er ríkisstjórnin farin að draga markvisst úr barneignum fólks með breyting um á fæðingarorlofi eins og fram kom áðan. Mig langar til að spyrja hv. þingmann hvort hún telji að það sé einhver möguleiki á því að við getum staðið undir þeim skuldbindingum sem á að leggja á okkur með þessu frumvarpi, hvort það sé einhver möguleiki á að við getum greitt eitthvað annað en vexti næstu áratugina.