138. löggjafarþing — 35. fundur,  30. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[11:40]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég hef verið viðstaddur alla þessa umræðu. Ég kann að hafa labbað stundum út úr salnum þegar stjórnarandstæðingar hafa verið í andsvörum við sjálfa sig eða rætt sem mest um fundarstjórn. En ég hef verið viðstaddur alla þessa umræðu og ég er enn að bíða eftir þessum nýju upplýsingum sem þingmenn eru alltaf að tala um. Það gerir upplýsingar að sjálfsögðu ekki nýjar þó að skrifaðar séu blaðagreinar og hafðar uppi hugleiðingar um aðalatriði þess máls sem öll hafa áður verið þaulrædd. (Gripið fram í.)

Varðandi fundargerðir af fundum get ég að sjálfsögðu skoðað hvort fundargerð af ECOFIN-fundinum liggur fyrir en ef ég veit rétt eru slíkar fundargerðir ekki gerðar opinberar. Ef ég man rétt var fundargerð af sambærilegum fundi fyrir ári meðal trúnaðargagna í skjölum utanríkismálanefndar. Það svarar hv. þingmanni um hvernig með það er farið.

Þegar ég rifja betur upp fundi að öðru leyti er staðan sennilega sú að ég hef átt tvo formlega fundi með fjármálaráðherra Hollands frekar en þrjá, og einn fund með efnahagsráðherra Hollands. Þar fyrir utan hef ég hitt ráðherra og aðstoðarráðherra frá fjölmörgum löndum og rætt þetta í Noregi, Svíþjóð, Danmörku, Þýskalandi, Frakklandi, Kanada o.s.frv., ég ætla ekki að telja það allt upp. Það er hluti af verkefnum og skyldum stjórnvalda að eiga slík samskipti.

Hv. þingmaður getur að sjálfsögðu nálgast þetta þannig að ef menn geta ekki sannað það með fundargerðum að þeir hafi reynt að halda á hagsmunum landsins sé eðlilegt að líta svo á að þeir hafi ekki gert það. Mér virðist það liggja undir í málflutningi hv. þingmanns.

Varðandi fundargerðir af fundum ráðherra almennt er það ekki þannig að þær séu færðar í þeim skilningi að þær séu síðan samþykktar af báðum aðilum, þaðan af síður birtar. Þetta hélt ég að hv. þingmaður þekkti (Forseti hringir.) sem fyrrverandi aðstoðarmaður ráðherra. Venjan er að embættismenn taki eftir atvikum niður minnisnótur sem hvor aðili fyrir sig hefur til að styðjast við.