138. löggjafarþing — 35. fundur,  30. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[12:01]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég get tekið undir það með hv. þm. Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur að þessi uppákoma áðan var mjög sérkennileg. Það verður reyndar að segjast eins og er að það virðist vera fylgifiskur þessa Icesave-máls alveg frá upphafi, og verður það hugsanlega til enda, að það er mjög sérkennilegt. Það er eiginlega alveg óþolandi að ekki skuli hafa tekist frá fyrstu stundu — en það er aldrei of seint, ég held við getum alltaf tekið málið upp aftur — að ná þeirri sjálfsögðu samstöðu sem þarf hér í þinginu um að verja hagsmuni Íslands. Það er alveg út í hött að við skulum vera hér í stöðugri pólitískri þrætu við stjórnarmeirihlutann um þá meginhagsmuni sem eru í þessu máli, sérstaklega þegar það kemur fram að erlendir fjármálaráðherrar, m.a.s. fjármálaráðherrar þeirra landa sem eru viðsemjendur okkar, bæði Hollendingar og Bretar, hafa uppi sömu skoðanir á grundvallarprinsippum eins og um það að jafnræðisregla gildi ekki í þessum innstæðutryggingarsjóði þegar um kerfishrun er að ræða. Þá er það með ólíkindum að það mál skuli ekki vera forgangskrafa hér á Íslandi.

Ég er á þeirri skoðun að skortur hafi verið á því að ríkisstjórnin hafi með formlegum hætti, bæði hæstv. forsætisráðherra og hæstv. fjármálaráðherra, staðið að fundum með þessum viðsemjendum okkar, þ.e. Bretum og Hollendingum, með viðkomandi ráðherrum og eins þá með öðrum Evrópulöndum, Norðurlöndum. Ég tel jafnvel að þingmenn hefðu átt að gera það líka með formlegum hætti. Ég veit til þess að margir þingmenn hafa átt óformlega fundi.

Ég held líka að það sé skortur á upplýsingagjöf frá hæstv. ríkisstjórn og stjórnarþingmönnum til þjóðarinnar. (Forseti hringir.) Þar skortir hreinlega á að þeir komi hingað upp og útskýri mál sitt, (Forseti hringir.) af hverju í ósköpunum við þurfum að taka þennan viðaukasamning og gera hann við samninginn frá í sumar. (Forseti hringir.) Hann getur ekki hafa batnað við það að Bretar og Hollendingar hafi farið höndum um hann.