138. löggjafarþing — 35. fundur,  30. nóv. 2009.

dagskrá fundarins.

[15:12]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Það er orðið verulega brýnt fyrir fyrirtækin í landinu að fá að vita hvað tekur við um áramót. Í gær hafði við mig samband verslunareigandi sem hefur af því miklar áhyggjur hvernig hann eigi að innheimta virðisaukaskatt um áramót vegna þess að kerfið hans ræður ekki við það. Gamla kerfið sem er búið að ganga í tíu, tólf ár ræður ekki við þetta nýja kerfi. Þetta er eitt af þeim dæmum sem við ræðum og ég skil ekkert í þvermóðsku hæstv. ríkisstjórnar að hleypa ekki þeim málum fram fyrir sem svo brýnt er að ræða, eins og skattamálum og öðrum slíkum sem ríkisstjórnin ætlar að breyta. Atvinnulífið í landinu stendur á öndinni yfir því hvað á að gerast 1. janúar.

Svo vil ég benda á að nú í morgun bárust fréttir af uppsögnum úti um allt land vegna þess að ríkisstjórnin ætlar að fara að skattleggja fyrirtækin. Það er verið að breyta vinnandi fólki sem borgar skatta yfir í atvinnuleysingja sem þiggja bætur, en það vinnur gegn fjárlagafrumvarpinu, frú forseti.