138. löggjafarþing — 35. fundur,  30. nóv. 2009.

dagskrá fundarins.

[15:15]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S):

Frú forseti. Fyrst varðandi ummæli hæstv. ráðherra um hvað biði okkar ef ekki yrði gengið strax að Icesave-samkomulaginu. Því hefur verið haldið fram að ekki væri hægt að ráðast í endurreisn íslensku bankanna nema búið væri að ganga frá Icesave-samkomulaginu, ekki væri hægt að fara í fjármál heimilanna til að hjálpa þeim nema búið væri að ganga frá Icesave-samkomulaginu, ekki stæðu nein lán til boða frá Norðurlöndunum nema búið væri að ganga frá Icesave-samkomulaginu, ekki væri hægt að tala við og vinna með Alþjóðagjaldeyrissjóðnum nema búið væri að ganga frá Icesave-samkomulaginu. Allt þetta hefur reynst rangt. (Gripið fram í: Þráhyggja.)

Það mætti benda hæstv. fjármálaráðherra á örlög drengsins sem hrópaði úlfur, úlfur endalaust. Við skulum ræða þetta mál af skynsemi og ábyrgð. Stjórnarandstaðan hefur enn á ný gert tilboð til stjórnarliða um það hvernig megi haga þingstörfum þannig að tryggt sé að hægt væri að ganga frá fjárlögum á þann hátt að sómi sé að fyrir Alþingi. Við leggjum til að við tökum fjáraukann í kvöld, göngum frá honum og á miðvikudaginn hefjum við störf við þau skattafrumvörp sem hæstv. fjármálaráðherra hefur lagt fram, þau verði afgreidd frá (Forseti hringir.) 1. umr. fyrir klukkan fjögur, gangi til nefndar og svo getum við haldið áfram að ræða Icesave ef það mál er enn þá á dagskrá.