138. löggjafarþing — 35. fundur,  30. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[15:46]
Horfa

Margrét Tryggvadóttir (Hr) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka þingmanninum fyrir ágæta ræðu og ég hefði áhuga á að ræða nánar við hann um tengsl ESB og Icesave. Því hefur oft verið fleygt, og ég hef reyndar haldið því fram sjálf, að Icesave sé aðgöngumiði Íslands inn í ESB. Sú skoðun virðist eiga marga fylgismenn og hún hefur valdið því einmitt að það er vaxandi óánægja í samfélaginu með afskipti Evrópusambandsins af samningaviðræðum okkar við Breta og Hollendinga. Ég held að ekki sé hægt að neita því að haldi þetta áfram svona muni íslenska þjóðin hafna aðild að Evrópusambandinu einmitt af þessum sökum. Því hef ég verulegar áhyggjur af að nú sé að skapast raunveruleg hætta á því að við kaupum okkur inn í Evrópusambandið með þessum rándýra aðgöngumiða, með því að kokgleypa Icesave, og taka á okkur þessar drápsklyfjar en að þjóðin muni svo hafna aðild og við sitja uppi með skuldirnar.

Nú ætla ég ekki að væna neina hv. þingmenn Samfylkingarinnar um það að trúa því að þegar við séum komin inn í Evrópusambandið muni Icesave-skuldbindingarnar hverfa eins og dögg fyrir sólu, en ég hef hins vegar heyrt á samfylkingarfólki og öðru fólki úti í samfélaginu að það trúir því að Evrópusambandið muni koma okkur til bjargar þegar inn er komið með einhverjum dularfullum hætti. Mig langar að spyrja hv. þingmann um afstöðu hans til þess.