138. löggjafarþing — 35. fundur,  30. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[15:52]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það sem ég held að hafi gerst er einfaldlega það að þjóðirnar eða forustumenn þjóðanna, Bretar og Hollendingar, hafi beitt sér mjög á öllum sviðum en forsvarsmenn AGS hafi verið meðvitaðir um að það væri ekki gott afspurnar ef hægt væri að tengja þá við það að verið væri að beita litla Ísland ofríki sem einhver handbendi þessara þjóða, og við nýttum ekki þau tækifæri sem við höfðum hvað þetta varðar. Við settum gríðarlega fjármuni í að reyna að komast í öryggisráð Sameinuðu þjóðanna en við nýttum ekki krafta okkar sameiginlega til að gæta hagsmuna okkar í þessu máli. Það er eitthvað sem liggur fyrir.

Varðandi samstöðuna er hún stóra málið. Hefðum við borið gæfu til þess að taka saman þennan slag, sem ég er sannfærður um að þjóðin hefði verið tilbúin í með okkur, væri staða okkar sterkari. En það er ekki öll nótt úti enn. Í mínum huga er málið mjög einfalt. Ég vek athygli á því að í sumar fóru stjórnarliðar mikinn, þeir töldu að þetta væri góð niðurstaða, þeir töldu að þetta væri innan samkomulagsins. Þeir töldu meira að segja að það hefði haft sérstaklega góð áhrif fyrir allt málið að hæstv. fyrrverandi heilbrigðisráðherra, Ögmundur Jónasson, sagði af sér. Þetta eru þeirra orð. Og þá eigum við bara að halda okkur við þennan samning eða réttara sagt þau lög sem við samþykktum. Alþingi sagði sitt síðasta orð og afstaða Breta og Hollendinga til þeirra laga verður þá bara að koma fram með beinum hætti. Boltinn er hjá þeim.

Núna eigum við að fara að vinna að mikilvægum málum í þinginu og sem allra fyrst. Við eigum að ýta þessu máli frá, við erum (Forseti hringir.) með lög um málið.