138. löggjafarþing — 35. fundur,  30. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[16:02]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður nefndi landhelgisdeilurnar og menn kunna að gleyma að við vorum í ekki ósvipaðri stöðu þá og nú. Þá var öll Evrópa á móti okkur, Vestur-Evrópa var á móti okkur, málið var ekkert öðruvísi. Þetta voru ekki bara Bretar, heldur svo sannarlega Vestur-Þjóðverjar, Hollendingar og aðrar þjóðir sem við skilgreinum sem vinaþjóðir okkar.

Enginn vafi er í mínum huga, þó að erfitt sé að bera svona hluti saman, að það var mikil gæfa að þegar kom að stóru línunum í því máli stóðu Íslendingar saman, þá stóðu pólitísku flokkarnir saman í því máli. Í mínum huga er þetta mál þannig að það er ekki valkostur að fara þá leið sem ríkisstjórnarflokkarnir leggja upp með. Það á alveg eftir að svara þeirri spurningu og ég er búinn að kalla fram þá spurningu úr þessum stól hvað eftir annað: Hvað breyttist? Enginn stjórnarliði eða hæstv. ráðherra hefur komið fram og sagt hver sé ástæðan fyrir því að þeir höfðu svona rosalega rangt fyrir sér fyrir nokkrum vikum síðan þegar þeir sögðu að þetta væri innan ramma samkomulagsins. Það hefur enginn upplýst um það.

Það sem liggur fyrir er einfaldlega þetta: Spunameistarar ríkisstjórnarinnar hafa komist að þeirri niðurstöðu að fólk sé búið að fá leið á þessu máli og ef hún getur bara sagt nógu oft að stjórnarandstaðan sé í málþófi verður pressa á stjórnarandstöðuna að gefast upp í þessu mikilvæga máli og þá getur ríkisstjórnin rennt málinu í gegn. Þannig er þetta. Þetta er kannski það alvarlegasta í málinu, því að ef einhvern tíma er þörf fyrir okkur að standa saman og standa vörð um hagsmuni okkar er (Forseti hringir.) það nákvæmlega núna.