138. löggjafarþing — 35. fundur,  30. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[16:04]
Horfa

Jón Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Eins og oft áður við þessa umræðu vantar alla ráðherra í salinn. Hæstv. fjármálaráðherra er á vappi einhvers staðar í nágrenninu og hæstv. forsætisráðherra sést náttúrlega ekki hér. Það er ekki að spyrja að því, vinnubrögð þessarar ríkisstjórnar gagnvart þinginu eru við sama heygarðshornið.

Ég var í 80 ára afmæli Stefnis, félags unga sjálfstæðismanna í Hafnarfirði, núna um helgina og þar var lesið upp úr um það bil 80 ára gamalli fundargerðabók þar sem tókust á í Bæjarbíói í Hafnarfirði sjálfstæðismenn og jafnaðarmenn. Þegar málflutningur var farinn að æsast, mönnum farið að hitna í hamsi og komið var að sjálfstæðismönnum að tala, þá gengu jafnaðarmenn úr salnum. Þeir gengu úr salnum syngjandi „Sjá roðann í austri“ á meðan sjálfstæðismenn í salnum stóðu upp og sungu: „Ó, fögur er vor fósturjörð“. Mér finnst þetta svolítið táknrænt fyrir þessa umræðu, virðulegi forseti, og fyrir þá hagsmuni sem hér eru varðir. Fátt hefur breyst á 80 árum. Ljóst er að við erum rétt að byrja þessa umræðu og við munum halda henni áfram meðan á þarf að halda. Einhverjir kalla þetta málþóf en við köllum þetta málefnalega umræðu og málefnalega vörn. Þetta er verkfæri minni hlutans í þinginu sem er tryggt í lögum um þingsköp til að meiri hlutinn geti ekki með skítugum vinnubrögðum valtað yfir minni hlutann í mikilvægum málum eins og því sem hér er til umræðu.

Það er alveg magnað, virðulegi forseti, hvernig tekist hefur til í þessum málum. Það er magnað að við skulum vera að rífast um slíkt hagsmunamál á hinu háa Alþingi. Þar er bara einu um að kenna og það eru vinnubrögð hæstv. ríkisstjórnar. Minni hlutinn á þingi, allir minnihlutaflokkar, hefur ítrekað boðist til að koma að þessu máli með meiri hlutanum, leggjast á árarnar með þeim og ná um þetta breiðri sátt eins og tókst í sumar og allir rómuðu svo þegar upp var staðið. Það er magnað að hæstv. ríkisstjórn og meirihlutaflokkarnir skuli ekki hafa kosið að hafa farið þá leið sem alltaf hefur verið farin þegar Ísland hefur átt í mikilvægri baráttu við nágrannalönd sín í lýðveldissögunni.

Áðan var minnst á þorskastríðin. Þar auðnaðist okkur að standa saman sem einn maður og verja hagsmuni landsins, þingið með þjóðina á bak við sig hlaut þá virðingu og þann sóma sem þeim vinnubrögðum bar. Nú er þetta ekki hægt og þá kemur upp þessi 80 ára gamla saga um vinstri menn sem gjarnan hafa starfað þannig að þeir vilji upplausn og óróleika í samfélaginu. Það sýndi sig í vetur þegar mótmælin stóðu sem hæst og menn ætluðu að standa saman á þinginu. Þá stóðu þingmenn vinstri flokka sem inni í þinginu og fyrir utan og hvöttu til mótmæla og lögðust jafnvel svo lágt að segja að það væri velkomið að bjóða fólki inn til að brjóta allt og bramla. Þetta eru staðreyndir málsins, virðulegi forseti, og þeim verður að halda til haga.

Mikill ágreiningur er meðal virtra fræðimanna, ekki bara hér á Íslandi heldur um allan heim, um hver lagaleg staða okkar er í þessu máli, hvaða ábyrgð við sem þjóð berum á því að það varð allsherjarhrun í bankakerfinu. Mikið magn upplýsinga hefur komið fram núna á síðustu dögum á meðan umræðan er í gangi um að jafnvel þeir þjóðarleiðtogar sem við höfum átt í samningaviðræðum við, eins og fjármálaráðherra Hollands, hafi sama skilning og margir aðrir að ábyrgð ríkisins eða innstæðutryggingarsjóðanna gildi ekki gagnvart kerfishruni eins og hér varð heldur því þegar einstakir bankar fara. Svo margar málefnalegar athugasemdir og upplýsingar hafa komið fram að ég skil ekki hvernig hv. þingmenn meirihlutaflokkanna geta látið það sem vind um eyru þjóta. Ég skil ekki hvernig þeir geta hugsað sér gagnvart framtíðarkynslóðum að skrifa upp á þennan samning eins og hann liggur fyrir, með þær upplýsingar í farteskinu sem hafa komið fram og þá óeiningu sem er vaxandi meðal þjóðarinnar. Nú er vel á annan tug þúsunda búinn að skrifa undir áskorun á heimasíðu Indefence og hraðinn á því hve margir skrifa undir vex núna frá klukkutíma til klukkutíma.

Allir mærðu niðurstöðu vinnu Alþingis í sumar og þær tillögur og þá niðurstöðu sem hv. fjárlaganefnd náði. Menn túlkuðu auðvitað þá fyrirvara sem voru samþykktir með misjöfnum hætti. Forustumenn ríkisstjórnarinnar sögðu að þeir mundu rúmast innan þeirra samninga sem fyrir voru meðan aðrir héldu því fram að hér væri um að ræða nýtt samningstilboð til viðsemjenda okkar, sem var raunin. Alþingi talaði skýrt og í mikilli samstöðu og í lögum nr. 96/2009 er sagt að viðmiðin séu forsenda fyrir ríkisábyrgð, forsenda sem ríkisstjórnir Íslands, Bretlands og Hollands hafa nú sameinast um að virða að vettugi og ætla að bjóða Alþingi upp á að gera slíkt hið sama. Þessi vinnubrögð ganga auðvitað ekki upp. Þessir samningar eru allt of einhliða og áhættumiklir. Sú spá sem Seðlabanki Íslands leggur til grundvallar því að þjóðin geti staðið í skilum er mikil bjartsýnisspá. Hún dregur engan lærdóm af sögunni í þeim efnum. Hvað ef það gerist sem við þekkjum í gegnum árin að getur orðið, að hér verði alvarlegir atburðir eins og t.d. aflabrestur, náttúruhamfarir eða annað sem þessi þjóð hefur áður mátt upplifa? Fyrirvararnir frá því í sumar fjölluðu um nákvæmlega þetta og tóku tillit til þess.

Einnig hafa komið fram alvarlegar ávirðingar um að sjálf stjórnarskráin sé í húfi. Það hreyfir ekki við stjórnarmeirihlutanum á þingi þó að jafnvel okkar virtasti lögspekingur til margra ára, Sigurður Líndal, velti þessu fyrir sér í nýlegri blaðagrein. Hann segir m.a., með leyfi forseta:

„Merkilegt má heita að í þeirri miklu umræðu sem fram hefur farið virðist ekkert hafa verið fjallað um hversu langt heimildir löggjafans ná til að skuldbinda íslenska ríkið (og þá um leið þjóðina) með þessum hætti — hvort ekki sé óhjákvæmilegt að setja slíkum skuldbindingum, sem allt bendir til að verði mjög þungbærar, einhver takmörk eins og leitast var við að gera í lögum nr. 96/2009. — Og þá hlýtur stjórnarskráin að koma til skoðunar. Þar er ekki tekið berum orðum á slíkum álitamálum. Í 21. gr. segir að samþykki Alþingis þurfi til breytinga á stjórnarhögum ríkisins og í 40. gr. að ekki megi taka lán er skuldbindi ríkið nema samkvæmt lagaheimild. Með frumvarpi því sem nú bíður afgreiðslu liggur vissulega fyrir lagaheimild, en verður ekki að gera þá kröfu að hún sé þannig úr garði gerð að skuldbindingum séu sett skýr takmörk og stofni þannig fullveldi ríkisins ekki í hættu? Og hér er álitaefnið hvort frumvarpið fullnægi þessum áskilnaði. Um það skal ekkert fullyrt, en hins vegar kemur á óvart að þessi þáttur virðist ekki hafa komið til almennrar umræðu. Væri nú ekki rétt að huga að þessu áður en frumvarpið verður samþykkt?“

Þessi orð eins okkar virtasta lögspekings til áratuga hreyfa ekki við stjórnarmeirihlutanum. Hann fer sínu fram eins og sást á þingfundi á laugardagskvöldið þegar þingfundi var haldið áfram þrátt fyrir alvarlegar ávirðingar um að hann væri ólöglegur. Það skipti þetta fólk ekki máli, það skal valtað yfir lög og reglur.

Í allri þessari umræðu er líka mjög alvarlegt hvernig hv. stjórnarþingmenn og hæstv. ráðherrar tala til þjóðarinnar og hversu mikla villu þeir setja þjóðina í með málflutningi sínum. Þá hafa hæstv. utanríkisráðherra Össur Skarphéðinsson og hv. þm. Guðbjartur Hannesson, formaður fjárlaganefndar, fullyrt að síðar meir megi segja ríkisábyrgðinni upp, draga hana til baka. Hv. þm. Björn Valur Gíslason segir að þetta sé sanngjarn samningur þar sem tekið sé tillit til Brussel-viðmiðananna sem áttu að vera grundvöllur í samningaviðræðunum, viðmiðana sem sett voru vegna fordæmislausra aðstæðna á Íslandi og erfiðrar samningsstöðu okkar út af því. Maður vill ekki trúa því að hv. þingmenn og ráðherrar sem svona tala hafi ekki kynnt sér þann samning sem þeir ætla að styðja betur en þetta. Eftir stendur að svona er talað og hverju á fólk að trúa, virðulegi forseti, hverju á almenningur að trúa þegar svo misvísandi skilaboð koma fram sem raun ber vitni? Að því er virðist hika menn ekki við að segja ósatt.

Ég vil gera aðeins hlé á máli mínu, virðulegi forseti, og óska eftir að hæstv. forsætisráðherra og/eða hæstv. fjármálaráðherra verði viðstaddir þessa umræðu, verði kallaðir í þingsal. Það er alger lágmarkskrafa að fulltrúar ríkisstjórnarinnar séu viðstaddir þessa umræðu.

(Forseti (SF): Forseti mun koma þessum skilaboðum áleiðis.)

Við fjöllum nú um tillögu sem er sögð vera samningur á milli Íslendinga, Breta og Hollendinga. Á sama tíma hafa átt sér stað bréfaskriftir á milli hæstv. forsætisráðherra og forsætisráðherra í Hollandi og Bretlandi og það er ljóst af þeim bréfaskriftum, virðulegi forseti, að hæstv. ráðherrar hjá þessum viðsemjendaþjóðum okkar skilja samninginn alls ekki með sama hætti og fulltrúar ríkisstjórnar okkar virðast gera. Eða kemur það ekki fram í þessum bréfaskiptum að menn túlka samninginn með gerólíkum hætti? (Gripið fram í: Tvær plánetur.) Tvær plánetur. Hvernig er hægt að afgreiða samning á hinu háa Alþingi sem engin samstaða er um hjá viðsemjendum, sem er ekki skýrður og túlkaður á sama hátt af hálfu viðsemjenda okkar og þeirra fulltrúa ríkisstjórnarinnar sem fara með málið? Með öðrum orðum, virðulegi forseti, það er ekkert samkomulag orðið á milli þessara þjóða um þetta mál. Menn skilja þetta gerólíkum skilningi eins og lesa má af þeim bréfaskriftum sem hafa farið fram. Auðvitað á ríkisstjórnin við þessar aðstæður að taka þetta mál til baka og fara í viðræður aftur og falla þá ekki í sömu gryfjuna og eftir þá samstöðu sem náðist á þinginu í sumar, eftir að við höfðum náð sameiginlegri niðurstöðu, þverpólitískri sameiginlegri niðurstöðu. Hún má ekki falla í sömu gryfjuna aftur og halda mönnum fyrir utan þær viðræður heldur reyna áfram að byggja upp breiða pólitíska sátt og samstöðu á hinu háa Alþingi sem síðan mundi gera það að verkum að þjóðin stæði á bak við þingið í þessu máli og sómi væri að.

Það er ekki krafa stjórnarandstöðunnar að ríkisstjórnin fari frá þó að þessu máli ljúki ekki núna. Það er krafa sem hefur komið upp innan ríkisstjórnarinnar sjálfrar og verður hún að eiga það við sig. Ljóst er að ákveðnir stjórnarþingmenn eiga í miklum vandræðum með að taka þátt í málinu eins og það er lagt fyrir í dag. Ég skil reyndar ekki hvernig ákveðnir þingmenn, t.d. hv. þm. Ásmundur Daði Einarsson sem hefur sagt að hann ætli ekki að tipla í kringum Samfylkinguna í ESB-málum og aðrir þingmenn sem tóku þátt í þessari vinnu með okkur í sumar, ætla að greiða atkvæði með þessu máli þegar búið er að sýna fram á og svo margir eru sammála um að þetta mál er nátengt umsóknaraðild okkar að Evrópusambandinu. Ef svo er og eitthvað er til í þeim hótunum sem birtar voru í fjölmiðlum fyrir helgina frá Evrópuþinginu, segi ég bara: Hvað höfum við að gera í slíkan klúbb?

Krafa okkar sjálfstæðismanna og stjórnarandstöðunnar í heild í þessu máli er að nú verði allt lagt á borðið, menn fari að tala skýrt og greinilega í þessu máli sem og öðrum, (Gripið fram í: Heiðarlega.) og heiðarlega. Menn hafi að leiðarljósi þá niðurstöðu sem fékkst á þjóðfundinum ágæta þar sem helst var talað um heiðarleika, réttlæti, ábyrgð og virðingu. Það er ósk okkar til hæstv. ríkisstjórnar að þannig verði talað en menn hætti að segja vísvitandi ósatt alveg eins og við urðum vitni að í umræðu um skattamál áðan þegar hæstv. fjármálaráðherra sagði ósatt um að það væri verið að laga kjör þeirra lægst launuðu í landinu. Af þessu tilefni vil ég, virðulegi forseti, koma með erindi úr ljóði sem hljóðar svo:

Það þarf meiri kjark til að segja satt en ljúga,

sjálfstraust til að efast er aðrir trúa,

djörfung til að mæla gegn múgsins boðun

og manndóm til að hafa eigin skoðun.