138. löggjafarþing — 35. fundur,  30. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[16:29]
Horfa

Margrét Tryggvadóttir (Hr) (andsvar):

Frú forseti. Við hv. þingmaður erum þá sammála um að meðal þjóðarinnar er ákveðinn klofningur. Þetta er þá kannski bara spurning um hvaða lög við ættum að vera að syngja núna ef við ætluðum að sýna þann klofning í söng. „Sjá roðann í austri“ var sungið fyrir 80 árum og þá er kannski nærtæk spurning: Hver er roðinn í austri núna? Er það vinstri stjórnin, sem mér virðist Vinstri grænum svo umhugað um að halda í að öllu sé til fórnandi, eða er það e.t.v. Evrópusambandið sjálft, að öllu sé til fórnandi til þess að við eigum greiðan aðgang inn í það?

Mér þætti gaman að heyra hjá hv. þingmanni hver hans afstaða til þessara mála er: Af hverju leggur ríkisstjórnin slíkt ofurkapp á að klára þetta mál? Hvað er það sem raunverulega hangir á spýtunni? Af hverju getum við ekki staðið saman, staðið keik sem þjóð og sagt: Nei, ég ætla ekki að láta valta yfir mig, við ætlum ekki að láta kúga okkur. Við erum Íslendingar, við ætlum að standa í lappirnar og svona látum við ekki koma fram við okkur. Það eru lög í landinu sem við settum hér í ágúst, af hverju gilda þau ekki?