138. löggjafarþing — 35. fundur,  30. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[16:38]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Höskuldur Þórhallsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir svörin og velti því einnig fyrir mér hver þáttur fjölmiðla er í þessu gríðarlega mikilvæga máli. Eitt sinn var því haldið fram að fjölmiðlar ættu að vera stjórnarandstaða, ættu að vera virkir þannig, virkt aðhald á stjórnvöld, en því miður virðist hluti þeirra a.m.k. virðist vera ekki í þeim gírnum.

Svo langar mig aðeins að taka upp það atriði sem þingmaðurinn velti upp hér áðan, varðandi þorskastríðin, og spyrja þingmanninn hvernig hann teldi vera komið fyrir þjóðinni ef Íslendingar hefðu ekki staðið í lappirnar og barist fyrir útfærslu fiskveiðilögsögunnar. Hvernig væri komið fyrir þjóðinni ef fiskveiðilögsagan hefði ekki verið færð út í 200 mílur? Höfum eitt í huga, það er rétt að það var samstaða, en þá heyrðust líka þær raddir að menn ættu nú að fara varlega í samskipti við aðrar þjóðir og ekki vera að setja sig á háan hest. Hvar væri þjóðin ef þingmenn þess tíma hefðu ekki staðið í lappirnar og boðið öðrum þjóðum byrginn, sýnt það og sannað að sjálfstæði okkar sem við hlutum 1944 væri ekki á engu byggt? Að þeir sem börðust fyrir því höfðu lagt grunninn að því að við færðum út fiskveiðilögsöguna og við lögðum grunninn að því velferðarkerfi sem er nú á Íslandi. Við búum í lýðræðisþjóðfélagi og hluti af lýðræðinu er að stjórnarandstaðan hefur málfrelsi (Forseti hringir.) hér á Alþingi.

Ég beindi spurningu til þingmannsins og vona (Forseti hringir.) að hann svari henni.