138. löggjafarþing — 35. fundur,  30. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[16:41]
Horfa

Jón Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er alveg sammála hv. þingmanni eða því sem lá í orðum hans þegar hann spurði þeirrar spurningar hvar þessi þjóð stæði ef okkur hefði ekki auðnast að standa saman og verja hagsmuni þjóðarinnar og landsins í þorskastríðunum. Það liggur alveg í augum uppi að við værum miklu veikari og um það snýst baráttan í þessu Icesave-máli núna. Hún snýst um að það þarf að fullnægja ákveðnu réttlæti og um ákveðnar grundvallarniðurstöður í samskiptum lýðræðisríkja. Því endurtek ég að það er alveg ömurlegt að vita til þess að hv. stjórnarþingmenn meiri hlutans skuli ekki geta fjallað með málefnalegum hætti um þetta mál og staðið vörð um hagsmuni þessarar þjóðar. Það er ömurlegt þegar þeir koma hér í ræðustól Alþingis, hvort sem það eru hæstv. ráðherrar eða hv. þingmenn, og segja hreinlega ósatt. Það er ömurlegt.

Þáttur fjölmiðla er síðan mjög ríkur. Þeir hafa gríðarleg áhrif í samfélagi okkar í dag, það hafa þeir reyndar alltaf haft, fjórða valdið. Ég minntist á hvernig þeir hefðu meðhöndlað þau mál sem brunnu á þjóðinni í fyrravetur og ber það saman við hvernig þeir gera það í dag. Hér voru haldnir einhverjir fundir vestur í Háskólabíói þar sem voru mættir kannski þúsund, tólf hundruð manns. Ég held að Háskólabíó taki þúsund manns í sæti eða hátt í það. Það var þúsund manna fundur hér á Austurvelli. Frá honum var tæplega greint, hvað þá útvarpað beint, (Forseti hringir.) eins og ítrekað var gert úr Háskólabíói. (Forseti hringir.) Það er hættulegt þegar öfl eins og Hagsmunasamtök heimilanna sitja ekki við sama borð (Forseti hringir.) og þeir sem þá stóðu fyrir opinni umræðu um hið alvarlega ástand sem var í samfélaginu. (Forseti hringir.)