138. löggjafarþing — 35. fundur,  30. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[16:44]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S):

Frú forseti. Það hefur borið nokkuð á því í umræðum að í þinginu séu átök á milli stjórnar og stjórnarandstöðu og má svo sem til sanns vegar færa að það væri hið eðlilega fyrirkomulag hlutanna. Við því má búast jafnt í stórum málum sem smáum. Þó má segja um þetta mál, þ.e. þá spurningu hvort við Íslendingar eigum að gangast undir þær ábyrgðir sem fylgja hinu svokallaða Icesave-samkomulagi, að það ætti að vera hafið yfir flokkakryt, það ætti að vera hafið yfir hin hefðbundnu átök stjórnar og stjórnarandstöðu. Í raun og sanni, frú forseti, má halda því fram að það hafi tekist hér á sumardögum og í upphafi hausts að ná fram slíkri samstöðu og samvinnu á hinu háa Alþingi Íslendinga. Það má vera til marks um mikilvægi málsins að að því komu allir flokkar, mismikið að sjálfsögðu, en það lögðu allir sín lóð á vogarskálarnar vegna þess að hv. þingmenn sáu að það frumvarp sem í upphafi var lagt fyrir þingið var óaðgengilegt fyrir okkur Íslendinga og þverpólitísk sátt náðist um að breyta því þannig að við Íslendingar gætum, þótt erfitt væri, lifað við þá niðurstöðu.

Margir hafa bent á og sagt að það geti aldrei verið þannig í deilum milli tveggja ríkja að annað ríkið setji bara einhliða einhvers konar afar- eða úrslitakosti og segi að við Íslendingar hefðum ekki getað gert með lögum samkomulag sem mótaðilunum var síðan ætlað að fallast á. Þá er til þess að horfa, frú forseti, að þetta er engin venjuleg milliríkjadeila. Almenn og venjuleg lögmál sem gilda um slíkar deilur eiga vart við í þessari deilu.

Frú forseti. Hvers vegna segi ég þetta? Jú, vegna þess að hér eru undir þvílíkar fjárhæðir fyrir okkur Íslendinga að rök má færa fyrir því að efnahagslegu sjálfstæði þjóðarinnar sé hætta búin gangi svartsýnar spár eftir um þróun efnahagsmála og/eða um endurheimtur á eignum í bú Landsbankans, á eignum þeim sem þar eiga að vera og áttu að vera. Því er það í sjálfu sér ekki óeðlilegt að Alþingi hafi gripið fram fyrir hendurnar á framkvæmdarvaldinu og sagt: Lengra erum við ekki tilbúin að ganga.

Ég ætla ekki að þykjast, frú forseti, vera einhver sérfræðingur í breskri sögu eða sögu breska þingræðisins en ég leyfi mér þó að fullyrða, frú forseti, að ef breskir þingmenn og breska þingið hefði staðið frammi yfir einhverjum viðlíka samningum og þeim sem okkur Íslendingum var boðið hefðu þeir a.m.k. sett þá fyrirvara sem íslenska þingið setti. Í þessari deilu er verið að neyta aflsmunar. Það er verið að neyta aflsmunar þar sem stórar þjóðir beita afli sínu gegn fámennri þjóð.

Bretar og Hollendingar hafa neitað okkur Íslendingum um þann rétt að úrskurðað verði um málið af til þess bærum aðilum. Þeir hafa raunverulega borið það fyrir sig, augljóslega reyndar, að undir séu svo miklir hagsmunir þeirra ríkja og annarra Evrópuríkja að ekki megi láta á það reyna hvort túlkun þeirra á innstæðutryggingarlöggjöfinni sé rétt eða röng, það séu bara of miklir hagsmunir undir. Þess vegna verðum við Íslendingar að bera hallann af því.

Við Íslendingar höfum sagt við þær þjóðir: Gott og vel, við skulum reyna að ná fram pólitískri lausn í málinu. Við skulum reyna að semja um það úr því að það stendur svo og þið hótið okkur að beita ofbeldi með þeim hætti sem þið hafið gert, þó að okkur sé það bæði óljúft og okkur sé gramt í geði.

Vandinn er að þessar þjóðir, Bretar og Hollendingar, hafa ekki boðið upp á neina slíka lausn. Krafa þeirra er greinilega sú að niðurstaða málsins verði sú sama og ef við Íslendingar hefðum farið í réttarsalinn, til dómarans, og hefðum hlotið þann dóm að málflutningur okkar stæði ekki, skilningur okkar væri rangur, okkur bæri að greiða hverja einustu evru og hvert einasta pund. Það er niðurstaða þess frumvarps sem nú liggur fyrir þinginu.

Það er furðulegt, frú forseti, að heyra það þegar menn reyna að halda því fram úr þessum ræðustól að þeir fyrirvarar sem settir voru í haust af Alþingi standi enn. Það má öllum hv. þingmönnum vera ljóst að svo er ekki. Ég tel reyndar, frú forseti, að það sé þannig að þjóðin sé smám saman að átta sig á því að þeir fyrirvarar sem settir voru í haust og allir fögnuðu heils hugar eru ekki lengur til staðar. Með öðrum orðum, áhættan af málinu er öll komin á herðar Íslands. Og því er erfitt að una, frú forseti. Það er erfitt að una því að eiga að sitja uppi með lausn sem er sú sama og við Íslendingar hefðum tapað í réttarsalnum og við hefðum verið dæmd til þess að borga hverja einustu krónu af því að samkvæmt frumvarpinu skulum við borga hverja einustu krónu, þannig er það. Ábyrgð Breta verður engin, ábyrgð Hollendinga verður engin en ábyrgð Íslands verður öll.

Við stjórnarandstæðingar höfum gagnrýnt ríkisstjórnina fyrir framgöngu hennar í málinu. Ekki er þar með sagt að við stjórnarandstæðingar gerum okkur ekki grein fyrir því að verkefni ríkisstjórnarinnar er bæði flókið og erfitt og að viðsemjendur okkar, ef viðsemjendur skyldi kalla, hafa verið óbilgjarnir svo ekki sé meira sagt. Auðvitað hafa þeir og búa að heilmiklum vopnum og ráðum til að gera okkur Íslendingum lífið mjög leitt, það er alveg augljóst. Það sem við þurfum að spyrja okkur að, hv. þingmenn og hæstv. ráðherrar, er eftirfarandi: Áhættan af því að halda áfram bardaganum og slagnum við Hollendinga og Breta og sitja undir þeim árásum og þeim ógnum sem þær þjóðir telja sig geta beitt okkur annars vegar og hins vegar að gangast undir Icesave-samkomulagið eins og það liggur fyrir núna og afleiðingar þess. Það er auðvitað hinn skelfilegi og nöturlegi veruleiki.

Ég öfunda ekki, frú forseti, hæstv. fjármálaráðherra af starfi sínu, það er mjög erfitt við þessar aðstæður, eða nokkurn þann sem ber ábyrgð á þessu máli. Það má öllum ljóst vera að það er engum ljúft að standa í þessu og menn gera það ekki að gamni sínu. En það er eðlilegt að við stjórnarandstæðingar ræðum slíkt mál á Alþingi í þaula vegna þess að það hefur sýnt sig og sýndi sig í sumar að þegar við fórum ofan í saumana á því frumvarpi sem þá lá fyrir komu í ljós ýmsir agnúar og vankantar sem við sögðum að væri ekki hægt að búa við, og ekki bara við hv. þingmenn heldur líka margir fræðimenn sem skoðuðu málið og komust að þeirri niðurstöðu að við yrðum að kalla fram ákveðnar breytingar.

Það sama á við nú vegna þess að það miklar breytingar hafa orðið á málinu frá því við samþykktum það á Alþingi í ágúst að við þurfum að fara mjög gaumgæfilega í gegnum það. Í því og þeirri umræðu er ekki fólgin einhver allsherjarfordæming á störfum ríkisstjórnarinnar en það er aftur á móti tekin upp sú skylda hv. þingmanna að fara í gegnum málið þannig að þegar það kemur til afgreiðslu, hvenær svo sem það verður, sé búið að fullkanna hvert einasta atriði og það verði ekki þannig að það komi síðan fram, eftir að Ísland hefur gengist undir þessar drápsklyfjar, að okkur hafi yfirsést, að okkur hafi mistekist við lagasetninguna og við höfum ekki áttað okkur á afleiðingunum. Enginn hv. þingmaður og enginn hæstv. ráðherra mun þola það að sitja undir slíku þegar fram líða stundir.

Allt tal um að verið sé að standa fyrir málþófi og tefja málið er marklaust að mínu mati. Það er ábyrgðarleysi að tala fyrir því að menn þurfi bara að flýta sér í gegnum þetta vegna þess að þjóðin eða margir hv. þingmenn séu orðnir leiðir og þreyttir á málinu. Það er fullkomið ábyrgðarleysi, frú forseti.

Valið er áfram erfitt sem við stöndum frammi fyrir. Eigum við möguleika á því að bæta málið? Getum við tekið áhættuna af því að segja við Breta og Hollendinga: Við ætlum ekki að gera neitt meira, við munum ekki hvika frá þeim fyrirvörum sem við gerðum í haust — eða eigum við að gangast undir þetta eins og það er? Það er hið erfiða og hið flókna. Það er mikil ábyrgð sem hvílir á okkur þingmönnum öllum vegna þessa.

Við þingmenn Sjálfstæðisflokksins teljum að nauðsynlegt sé að knýja fastar á um ýmsa þætti í málinu gagnvart þessum svokölluðu viðsemjendum, þannig að ekki séu uppi hlutir í frumvarpinu sem eru óaðgengilegir fyrir okkur Íslendinga, jafnvel þó að okkur sé hótað öllu illu. Auðvitað er verið að hóta okkur og hefur ýmsu verið hótað í þessu máli. Bent var á það í haust að hætta væri á því að matsfyrirtækin mundu lækka lánshæfismat okkar Íslendinga og sú hætta er ábyggilega enn þá við lýði, frú forseti. Og hætta er á því að Hollendingar og Bretar haldi áfram að beita sér af afli gegn okkur í Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og hætta er á því að þeir haldi áfram að beita sér gegn vinaþjóðum okkar á Norðurlöndum og reyni að koma í veg fyrir að þær haldi áfram að lána okkur það fé sem við þurfum svo sannarlega á að halda. Þessar hættur eru allar áfram uppi. Á móti þeirri hættu, frú forseti, þarf að meta afleiðingar þess ef við göngumst undir þessar klyfjar. Þetta er það mat sem við stöndum frammi fyrir.

Hvað varðar mat á lánshæfiseinkunn okkar Íslendinga verð ég reyndar að segja að ástæða er til að hafa áhyggjur af þróun mála í veröldinni akkúrat þessa dagana, m.a. vegna þess sem gerst hefur í fjarlægum löndum, eins og í Dúbaí og víðar, sem hefur sett núna pressu á öll þau ríki sem eru mjög skuldsett, að lánshæfismat þeirra verði lækkað. Það er mikil hætta á því. Það er hætta fyrir okkur Íslendinga, hún er til staðar hvort sem við höfum gengist undir Icesave-skuldbindingarnar eða ekki. Menn geta síðan velt fyrir sér hættu okkar Íslendinga þegar fram líða stundir, ef við göngumst undir slíkar skuldbindingar og ef gengur hér illa í hagkerfinu á næstu árum og ef innheimturnar úr Landsbankanum verða litlar, hvernig matsfyrirtækin munu horfa á skuldastöðu Íslands. Og hvort við munum nokkurn tíma eiga séns á að vinna okkur út úr þeirri stöðu. Enn á ný, við þurfum að velta því fyrir okkur hvort við viljum taka áhættuna af áframhaldandi slag við viðsemjendurna svokölluðu eða hvort við ætlum að gangast undir þetta.

Þannig vill til að við hv. þingmenn vorum kosin á Alþingi og hæstv. ríkisstjórn hefur framkvæmdarvaldið í höndunum. Það er því okkar að taka þessa ákvörðun. Ég er nokkuð viss um að það væru allir guðs lifandi fegnir að þurfa ekki að taka þá ákvörðun og bera ábyrgð á henni en þetta er hlutskipti okkar. Það er vissulega svo, frú forseti, að það er engin góð lausn í málinu, það er engin lausn fólgin í því að við þurfum að beygja okkur svo fullkomlega fyrir þessum þjóðum.

Það er líka svo augljóst þegar menn horfa til þess hvernig forustumenn þessara þjóða tala, eins og rætt hefur verið um í þinginu, t.d. fjármálaráðherra Hollands, sem hefur einmitt tekið undir þau sjónarmið Íslendinga að það kerfi sem er utan um innstæðutryggingarnar í Evrópu sé ekki hannað til að takast á við það þegar heilt bankakerfi hrynur. Samt sem áður eru þeir tilbúnir til þess að setja fámenna þjóð í þá stöðu sem það frumvarp sem hér liggur fyrir, verði það að lögum, að við Íslendingar verðum í raun og sanni skattgreiðendur til umræddra landa, Hollendinga og Breta, þrátt fyrir að það standi í lögum að við Íslendingar séum ekki sammála þeirri skoðun að okkur beri að greiða þetta og við séum að greiða þetta í nauð vegna þess að við óttumst að þessi ríki muni beita afli sínu og getu til að gera okkur lífið óbærilegt, að við teljum að það sé betra að fara þessa leiðina. Það er sú staða sem blasir við ef við segjum já.

Fyrir margt löngu var heil öld sem kölluð var enska öldin. Það kann að vera að ef við göngumst undir þetta og þetta verði raunveruleikinn og ef hann verður ekki umflúinn verði sú öld sem nú er nýhafin kölluð enska öldin hin síðari og við Íslendingar gerumst í raun og sanni skattgreiðendur til bresku krúnunnar. Það er auðvitað jafngildi þess að missa hluta af forræði sínu, missa hluta af sjálfstæði sínu. Þess vegna er þetta alvarlegt mál.

Enn á ný, ég er ekki þeirrar skoðunar að hæstv. fjármálaráðherra eða hæstv. ríkisstjórn hafi staðið svo að málum að það hafi verið gert af kæruleysi eða vegna þess að þeir hafi ekki reynt allt hvað þeir gátu. Deilan snýst um þetta: Hún snýst um hvort sú stefna og þær áherslur sem ríkisstjórnin hefur haft í málinu hafi verið réttar. Ég efast ekki um að hugur hafi fylgt máli hjá hæstv. fjármálaráðherra og ríkisstjórninni, því að þau hafa verið á fundum og hafa reynt að berjast fyrir hagsmunum Íslendinga. Ég tel að hæstv. fjármálaráðherra og hæstv. forsætisráðherra hafi misskilið nokkuð þessa umræðu þegar hæstv. ráðherrar hafa talað um að verið væri að brigsla þeim um landráð. Ég held að enginn sé að því, en við erum ekki sátt og við erum ekki sammála um það hvernig á málinu hefur verið haldið.

Ég hef ítrekað úr þessum ræðustól, frú forseti, beint þeirri spurningu til hæstv. forsætisráðherra hvernig standi á því að hæstv. forsætisráðherra hafi t.d. ekki skrifað formlegt bréf til Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og krafist skýringa, formlegra skýringa á því hvernig standi á því að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hafi dregið jafngríðarlega og hann gerði að taka mál Íslendinga fyrir. Það var auðvitað nöturlegt fyrir hæstv. forsætisráðherra að það skuli svo hafa verið leikstjóri úti í bæ sem sendi bréfið og tók ómakið af hæstv. forsætisráðherra. Það var auðvitað nöturlegt.

Það eru einmitt þessir þættir, rétt eins og hæstv. forsætisráðherra var margsinnis spurð: Hefur hæstv. forsætisráðherra átt sérstaka fundi með forsætisráðherrum Norðurlanda? Hefur hæstv. forsætisráðherrann sent forsætisráðherrum Norðurlanda bréf þar sem að sjálfsögðu er þökkuð lánafyrirgreiðslan en um leið, í ljósi áratugalangrar góðrar sögu samskipta þessara ríkja, þessara vina-, bræðra- og frændþjóða, spurst kurteislega fyrir um það hvernig á því standi að þessar þjóðir tengi saman lánveitingu til Íslands, sem þær góðfúslega ætluðu að veita okkur á ögurstundu í sögu okkar þegar við þurftum á því að halda. Og hvernig standi á því að gerð sé krafa um það að við Íslendingar föllumst á kröfur Breta og Hollendinga sem svo sannarlega og augljóslega eru jafnþungbærar og raun ber vitni.

Auðvitað hlýtur hæstv. forsætisráðherra að velta því fyrir sér svona eftir á hvort það hefði ekki verið betra, þó ekki væri nema bara vegna orðspors ríkisstjórnarinnar og hæstv. forsætisráðherra, að slík bréf hefðu verið send og slíkar samræður hefðu átt sér stað þannig að hægt væri að vitna til fyrir okkur alþingismenn. Það er nefnilega ekki nóg, frú forseti, þegar hæstv. forsætisráðherra kemur í ræðustól og segist víst hafa hitt þessa menn og talað við þá. Það þarf að standa með öðrum hætti að samskiptum við aðrar þjóðir í jafnmikilvægu máli og þessu. Það er ekki hægt að segja: Ég er bara sannfærð um að svona sé þetta og ég hafi hitt manninn eða talað við hann í síma. Menn verða að standa öðruvísi að málum.

Enda sýndi það sig, frú forseti, að þegar Dominique Strauss-Kahn hafði svarað Gunnari leikstjóra, erindi hans um afstöðu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, að þá að sjálfsögðu stóðu Norðurlöndin frammi fyrir því að það væri upp á þau komið að við Íslendingar gætum ekki fengið lán vegna þess að þau væru að krefjast þess að við gerðum upp við Breta og Hollendinga. Og hvað gerist? Næsta sem gerist er að Norðmenn tilkynna að þau lán séu til útgreiðslu sem þeir hafi heitið Íslendingum til að hjálpa okkur í þeim erfiðleikum sem við stöndum í. Þetta er eitt af þeim dæmum sem hljóta að vera hæstv. forsætisráðherra nokkuð til umhugsunar (Gripið fram í: Og fjármálaráðherra.) þegar kemur til þessara hluta. Ég geri þá kröfu að hæstv. forsætisráðherra þjóðarinnar sé í forsvari fyrir þjóð sína á ögurstundu eins og þessari í sögu okkar, þegar stendur til að við eigum að gangast undir jafnmiklar byrðar og verið er að ræða.

Frú forseti. Hvenær svo sem þessari umræðu lýkur er alveg ljóst að það skiptir máli að við náum á næstu sólarhringum góðri sátt í þinginu um það hvernig við höldum áfram með þingstörfin. Þó að við þurfum að ræða Icesave-málið áfram í einhvern tíma, og ég vil nota síðustu sekúndur mínar í þessari ræðu til að ítreka það tilboð sem stjórnarandstaðan hefur af heilum hug gefið til hæstv. fjármálaráðherra og ríkisstjórnarinnar allrar (Forseti hringir.) um það hvernig hægt er að halda áfram á málum.