138. löggjafarþing — 35. fundur,  30. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[17:07]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Fyrst hvað varðar afstöðu forustumanna Sjálfstæðisflokksins og Sjálfstæðisflokksins hér á þingi, við höfum sagt að það yrði að reyna að ná samkomulagi við þessar þjóðir um málið úr því að ljóst væri að þær mundu ekki hleypa málinu inn í dómsalinn. Vandinn er sá að sú niðurstaða sem hefur komið til okkar frá þessum þjóðum, þessum viðsemjendum okkar, er þess eðlis að menn hafa ekki getað sætt sig við hana. Það sem gerðist hér í sumar var að það frumvarp sem hæstv. fjármálaráðherra lagði fyrir þingið undirgekkst mjög miklar breytingar, það voru gerðar mjög miklar breytingar á því frumvarpi til þess að gera það bærilegt fyrir íslenska þjóð og til að það endurspeglaði einhvers konar pólitíska lausn. Sagt var við viðsemjendur okkar: Þetta er dæmi um pólitíska lausn og við viljum að þið gangið að einhverju slíku. En það var greinilega enginn samningsvilji af hálfu þessara aðila.

Hvað varðar efnahagsfyrirvarana sem hæstv. fjármálaráðherra ræddi hefur sú stóra breyting orðið á að í stað þess að greiðsla Íslands á hverju tímabili eða hverju ári væri takmörkuð við ganginn í efnahagslífinu eigum við nú alltaf að borga vextina, sama hvernig gengur. Það sem meira er, við, Alþingi Íslendinga, sögðum að ábyrgðin næði bara til ákveðins tíma þannig að það sem ógreitt væri, uppsafnaðir vextir og annar kostnaður, hver svo sem hann nú yrði, ætluðum við ekki að ábyrgjast eftir ákveðinn tíma. Það sem hefur breyst hvað varðar efnahagslegu fyrirvarana er með öðrum orðum, frú forseti, að við eigum alltaf að greiða fulla vexti, sem eru auðvitað þunginn í þessu máli öllu saman, sama hvernig árar. Og ef við erum ekki búin að greiða þetta allt saman á tilteknum tíma, framlengist þetta og getur framlengst árum og áratugum saman þess vegna ef illa gengur hér á Íslandi. Það er ekki nóg að segja að (Forseti hringir.) það sé ólíklegt að það gerist af því að þess vegna setjum við tryggingar, (Forseti hringir.) til þess að bregðast við ef illa gengur og hið ólíklega gerist.