138. löggjafarþing — 35. fundur,  30. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[17:18]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Þetta er skarplega athugað hjá hv. þingmanni. Það er nefnilega svo að Hollendingar og Bretar hafa tekið sér þá stöðu að þeirra sé allt valdið og við Íslendingar verðum að lúta afarkostum þeirra. Það er auðvitað það sem ég var að segja í ræðu minni, að niðurstaða þessa máls er sú sama, hvað öll meginatriði varðar, eins og við höfum tapað málinu fyrir dómstólum, það hafa ekki farið fram neinir samningar. Þess vegna verður það auðvitað enn sárara fyrir okkur Íslendinga að horfa á þessa niðurstöðu vera að fæðast.

Hvað varðar einmitt samskipti okkar við þessar þjóðir gerði ég það að umræðuefni í ræðu minni hvernig hæstv. forsætisráðherra hefur haldið á sínum málum. Í þeim bréfum sem við sáum fara á milli hæstv. forsætisráðherra Íslands og Gordons Browns, forsætisráðherra Breta, er nánast spurt hvort ekki sé heppilegt að hafa fund. Það er svona sett fram í spurnartón, í stað þess auðvitað að þar hefði átt að krefjast þess og segja: Við munum ekki halda áfram neinum samningaviðræðum hér nema við fáum þennan fund. Það er lágmark þegar um er að ræða deilu sem skiptir jafnofboðslega miklu máli fyrir báða aðila. Hún skiptir máli fyrir okkur óumdeilanlega og hún skiptir líka máli fyrir Breta og Hollendinga vegna þess sem ég hef áður rakið, hversu mikilvægt það er fyrir þessi ríki og önnur Evrópuríki að halda innstæðutryggingarkerfinu gangandi. Það dugar ekki að setja málið þannig fram eins og því miður hefur nokkuð borið á, að við höfum ekki sótt nægilega fast á þá aðila sem hafa verið okkur erfiðir í þessu máli, t.d. eins og Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn, eins og Bretar og Hollendingar hvað þessa hluti varðar, þó að ég ætli ekki að gera lítið úr þeirri vinnu sem samninganefndin hefur unnið og einstakir íslenskir hæstv. ráðherrar, af því að ég er þeirrar trúar að þetta fólk sé alltaf að reyna að gera sitt besta. En við þessar aðstæður hefur það bara ekki reynst nóg. (Forseti hringir.)