138. löggjafarþing — 35. fundur,  30. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[17:33]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Ég komst ekki í það áðan að ræða um dagskrána sem við höfðum í dag. Á dagskránni eru níu mál, þar af eru fimm mál frá hæstv. fjármálaráðherra sem eru afskaplega mikilvæg. Þau eru fjáraukalög, ráðstafanir í skattamálum, tekjuöflun ríkissjóðs, umhverfis- og auðlindaskattar og tekjuskattur, og það er ekki nema mánuður þar til þessi lög eiga að taka gildi og eiga að hellast yfir atvinnulíf og heimili í landinu. Ég er viss um að hæstv. fjármálaráðherra fer að líða mjög illa. Mér finnst að forseti ætti, sem ég reikna reyndar með, að tilkynna okkur einhvern tíma í kvöld, klukkan sjö eða átta, að hún muni taka þessi mál á dagskrá og fresta umræðu um 4. dagskrármálið um ríkisábyrgð, ég geri fastlega ráð fyrir því. En ég vildi gjarnan fá að vita það til að byrja með, því að ég hef mikinn áhuga á þessum málum og hef ekki haft mikinn tíma til að setja mig inn í þau, frú forseti, vegna þess að við erum sífellt að ræða eitt mál.