138. löggjafarþing — 35. fundur,  30. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[17:35]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Ég verð þó að segja að mér væri ekki alveg sama um það ef hér væri fundað fram yfir miðnætti. Það er 1. desember á morgun og ég tel að það væri ekki bragur á því að Alþingi væri að funda á þeim degi.

Ég vil nota tækifærið úr því að hæstv. fjármálaráðherra situr í salnum með okkur til að endurtaka tilboð okkar stjórnarandstöðunnar og hvetja forseta til að beita þeirri heimild sem forseti hefur í 2. mgr. 63. gr. þingskapalaganna og breyta dagskrá þessa fundar þannig að frá klukkan átta tökum við fyrir mjög mikilvægt mál, sem eru fjáraukalög, klárum þau, og síðan á miðvikudag þegar við komum aftur til þingfundar verði strax ráðist í það að ræða skattafrumvörp hæstv. fjármálaráðherra og þau afgreidd þannig að þau geti farið til nefndar, og við þá haldið áfram að ræða Icesave-málið ef það er enn á dagskrá. Forseti hefur heimild til að gera þetta. Forseti ber auðvitað ábyrgð gagnvart þinginu, ekki gagnvart ríkisstjórninni, (Forseti hringir.) og á að tryggja það að þingið sinni (Forseti hringir.) störfum sínum réttilega.