138. löggjafarþing — 35. fundur,  30. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[17:44]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Mig langar að blanda mér inn í umræðuna um fundarstjórn forseta þar sem ég tel rétt að fram komi og forseti gefi það út hvað þessi fundur á að standa lengi. Það er rétt að talað hefur verið í nokkra klukkutíma í þessu máli en mér finnst það hreinlega ekkert langt, 1.661 mínúta er bara ekkert svo langt. Hvað halda menn að komandi kynslóðir komi til með gera þegar þær eru að borga þessa reikninga? Halda menn að þær fletti því ekki upp hvað hér var sagt og halda menn að þær vilji ekki að fólk tjái sig í þessu máli?

Það væri kannski vit í því fyrir hv. stjórnarþingmenn að blanda sér í umræðuna, koma því á blað í þingtíðindin hvað þeir hafa til málanna að leggja og hvernig þeir rökstyðja sitt mál. Eða er það eitthvað sem þeir geta ekki gert? (Gripið fram í.) Hafa þeir einhverja sannfæringu í þessu máli? Það væri ágætt að fá það fram, frú forseti.