138. löggjafarþing — 35. fundur,  30. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[17:55]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Mér finnst við í stjórnarandstöðunni vera ósköp mikil unglömb þegar kemur að samskiptum á milli hæstv. þingmanna og hæstv. ráðherra. Mér finnst eins og við eigum langt í land með að ná hinum hefðbundna strigakjafti sem var í stjórnarandstöðu fyrri tíma. En hæstv. fjármálaráðherra kemur hingað upp og kveinkar sér undan umræðunni, undan þeim lögbundna rétti sem stjórnarandstaðan hefur samkvæmt þingsköpum, sem hæstv. forseti á að verja okkur þingmenn með. Hæstv. fjármálaráðherra ræðst á okkur fyrir að nýta okkur þann hefðbundna og lögbundna rétt sem við höfum lögum samkvæmt. Við stöndum vaktina því að í sífellu koma fram mjög mikilsverðar ábendingar sem ég skil vel að fjármálaráðherra Íslands kveinki sér undan, ábendingar frá Ragnari Árnasyni, Sigurði Líndal, Stefáni Má Stefánssyni og Lárusi Blöndal. Indefence er að safna undirskriftum. Auðvitað er eðlilegt að fjármálaráðherra (Forseti hringir.) vilji bara klára málið. Það er hann (Forseti hringir.) sem kveinkar sér en við munum áfram nýta okkur þann rétt (Forseti hringir.) sem við höfum lögum samkvæmt. (VigH: Heyr, heyr.)