138. löggjafarþing — 35. fundur,  30. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[18:19]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Höskuldur Þórhallsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir hennar ræðu, hún var málefnaleg. Ég hef tekið eftir því að þingmaðurinn hefur beitt sér mjög fyrir lýðræðislegum umbótum, sérstaklega í þá veru að efla vald Alþingis.

Fyrir um ári steig ég hér í pontu ásamt þingmanni, núverandi menntamálaráðherra, Katrínu Jakobsdóttur. Þær umræður leiddu það af sér að hingað í ræðustól komu tvær þingkonur Sjálfstæðisflokksins og lýstu því yfir að þeim liði eins og þær væru afgreiðslukonur á kassa.

Síðan fór af stað mikil lýðræðisleg umræða í þjóðfélaginu sem m.a. gat af sér Borgarahreyfinguna og t.d. umbreytingar innan míns flokks. En því miður virðist sem svo að þessu hafi ekki verið fylgt eftir. Mig langar því að spyrja hv. þingmann hvernig henni lítist á þau vinnubrögð sem hér hafa verið viðhöfð eftir að hafa verið á þingi í nokkra mánuði. Mín skoðun er sú að það hvernig farið hefur verið með Icesave-málið endurspegli allt það versta sem Alþingi Íslendinga gæti hugsanlega staðið fyrir.

Til dæmis það að þingmenn ætluðu að koma hingað upp og samþykkja samninginn óséðan — leyndin yfir öllum gögnunum, blekkingarnar og sú staðreynd að hugsanlega hefur samningurinn legið fyrir fyrir kosningar. Ég held að við verðum í framtíðinni að beita okkur fyrir því að efla störf Alþingis, ná fram þrígreiningunni sem er svo (Forseti hringir.) mikilvægt að ná fram.