138. löggjafarþing — 35. fundur,  30. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[18:31]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég tek heils hugar undir með hv. þm. Birgittu Jónsdóttur, það er vansæmd fyrir þingið að sjá hvernig ríkisstjórnin reynir að ýta þessu ofan í kok á okkur þingmönnum, þessum ömurlega samningi sem nú liggur fyrir, sem er ekkert annað en afleiðing vonlausrar verkstjórnar. Það var einmitt ekki farið í það sem mér finnst hv. þingmaður vera að kalla eftir, þverpólitíska samstöðu á þeim grundvelli að við værum öll að vinna saman að því að byggja hér upp íslenskt og betra samfélag í haginn fyrir framtíðarkynslóðir. Ríkisstjórnin og stjórnarliðar geta ekki komið hér og sagt að við höfum ekki í sífellu rétt út sáttarhönd til þess einmitt að fara í þessi stóru verkefni sem tengjast Icesave og reynt að standa vaktina varðandi verkefni sem tengjast skuldavanda heimilanna og svo má lengi telja.

Hv. þingmanni hefur orðið tíðrætt um vinnulag þingsins og því spyr ég: Hvernig hefur þá vinnulag ríkisstjórnarinnar blasað við þingmanninum? Hvaða vonir og væntingar bar hún í brjósti þegar hún settist inn á þing í (Forseti hringir.) garð ríkisstjórnarinnar og þeirrar verkstjórnar nýju sem þá var boðuð?