138. löggjafarþing — 35. fundur,  30. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[18:32]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (Hr) (andsvar):

Herra forseti. Ég verð að viðurkenna að ég hef orðið fyrir mjög miklum vonbrigðum því að ég batt miklar vonir við ríkisstjórnina. Ég held að það sé eins og hv. þm. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir sagði í útvarpsviðtali nýverið að engum stjórnvöldum er hollt að vera allt of lengi við völd. Það var vissulega kominn tími á annað stjórnarfar, en ég held að við séum einmitt komin á þann punkt í tilverunni, og sérstaklega núna þegar við erum að vinna úr þessum stóru málum, að við verðum aðeins að fara handan hægri/vinstri og leita að þessum punkti sem við getum unnið saman á.

Ef ég hefði ekki stofnað þessa Borgarahreyfingu ásamt fjöldamörgum öðrum hefði ég örugglega kosið annan hvorn vinstri flokkinn og þá væri ég örugglega að naga á mér handarbökin yfir að hafa gert það (Forseti hringir.) af því að mér finnst þau ekki hafa staðið við það sem þau lofuðu.