138. löggjafarþing — 35. fundur,  30. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[18:57]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Höskuldur Þórhallsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tek undir með hv. þingmanni. Alþingi Íslendinga setti þann fyrirvara að ef Bretar og Hollendingar mundu ekki vilja semja við okkur eða ef viðræðurnar færu út um þúfur gætum við Íslendingar einhliða lýst því yfir að þeir mundu fella ríkisábyrgðina úr gildi. Það er farið. Engu að síður er því ítrekað lýst yfir að lagalegu fyrirvararnir séu enn þá til staðar.

Varðandi Ragnars H. Halls-fyrirvarann má vel vera að hugsanlega fari málið til EFTA-dómstólsins, en öll óvissa í málinu er Bretum í hag. Ef álit íslenskra dómstóla og breskra og EFTA-dómstólsins stangast á þá gildir EFTA-úrskurðurinn. Er víst að EFTA sé tækt til þess að taka málið til efnislegrar meðferðar? Það er ekkert víst. Hér er bara fullyrt í ræðustól að ef þeir ætli ekki að taka málið fyrir geti Íslendingar lýst því yfir að dómsniðurstaða hérlendis gildi. Þetta hefur hvergi komið fram í samningum milli landanna, hvergi nokkurs staðar. Það liggur engin yfirlýsing fyrir um vilja breskra og hollenskra stjórnvalda til þess að túlka samninginn á þennan hátt og því tek ég undir með hv. þingmanni.

Mig langar að beina spurningu til hennar sem lýtur að orðum hæstaréttarlögmannsins Ragnars Halldórs Hall þegar hann tekur undir með lagaprófessornum Sigurði Líndal þar sem hann bendir á að engin raunveruleg úttekt liggi fyrir um það hvort efni lagafrumvarpsins eins og það liggur fyrir samrýmist stjórnarskrá lýðveldisins. (Forseti hringir.) Hann bendir líka á að í seinni tíð virðast menn umgangast stjórnarskrána af meiri (Forseti hringir.) léttúð en lengst af áður. Er þingmaðurinn sammála þessari greiningu?