138. löggjafarþing — 35. fundur,  30. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[19:02]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Þór Saari) (Hr) (andsvar):

Virðulegur forseti. Mig langar að þakka hv. þm. Ólöfu Nordal fyrir skörulega ræðu. Það er greinilegt að hún þekkir málið vel, enda unnum við nótt og dag í sameiningu í fyrrasumar við að reyna að tjasla upp á hið hrikalega Icesave-samkomulag sem var gert fyrr á árinu. Hæstv. forseti sem situr hér fyrir aftan mig átti drjúgan þátt í þeirri vinnu líka og ég sit uppi með þá tilfinningu að sú vinna hafi verið mjög merkileg og til eftirbreytni fyrir Alþingi Íslendinga. Þess vegna þykir mér mjög dapurlegt að verða vitni að því hvernig niðurstaðan úr því máli var tekin af hæstv. forsætisráðherra og fjármálaráðherra og sett í hendur embættismanna sem fóru svo með málið yfir hafið til Evrópu þar sem Alþingi hafði lagt upp fyrir þá að kynna það fyrir ríkisstjórnum Breta og Hollendinga. Það var greinilegt þegar þeir komu til baka úr þeirri för og komu fyrir fjárlaganefnd til að segja sögur úr ferðalaginu að sú ferð var ekki til fjár, enda virtust embættismennirnir einfaldlega ekki hafa skilið málið. Það var alveg hrikaleg upplifun.

Í framhaldi af því langar mig einfaldlega að spyrja hv. þm. Ólöfu Nordal: Telur hún æskilegt að reyna að breyta þessu frumvarpi sem er ávöxtur þessa klúðurs með tilliti til þess tíma sem það tók í sumar? Er í rauninni hægt að (Forseti hringir.) reyna eitthvað að breyta því eða ber einfaldlega að draga það alfarið til baka?