138. löggjafarþing — 35. fundur,  30. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[19:04]
Horfa

Ólöf Nordal (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég lít svo á að þessu máli sé ekki lokið fyrr en búið er að samþykkja það á Alþingi. Fram að þeim tíma að atkvæðagreiðsla, herra forseti, verður eftir 3. umr. um þetta Icesave-mál lít ég svo á að það sé mitt hlutverk að reyna að afla því fylgis að vernda hagsmuni Íslendinga til lengri tíma betur en þarna er gert.

Mér finnst ástæða til að segja það aftur sem ég sagði í ræðu minni að ég ber það ekki upp á menn að þeir hafi unnið kæruleysislega í þessu máli. Ég held að menn hafi virkilega haldið að þeir kæmust ekki lengra. Ég er hins vegar bara á annarri skoðun með það. Ef við lítum til þeirra gagna sem við fengum þó í hv. fjárlaganefnd í lokaatrennunni þar sem eru lýsingar frá einstökum fundum vegna þessara viðræðna finnst mér það bera þess merki að viðsemjendur hafi strax í upphafi, áður en samningslotan hófst, lýst því yfir að þessu yrði að breyta. Jú, þetta eru áhugaverðir fyrirvarar, en þetta verður ekki svona. Síðan gerðu þeir það sem þeir kunna best, tóku málið til sín og eru með allt frumkvæði í því. Þessi lokaatrenna ber þess öll merki.

Ég mun ekki láta af því að reyna að færa rök fyrir því að málinu þurfi að breyta fyrr en búið er að samþykkja það eftir 3. umr. á Alþingi.