138. löggjafarþing — 35. fundur,  30. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[19:06]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Þór Saari) (Hr) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Ólöfu Nordal svarið. Ég er sennilega þeirrar skoðunar líka að þetta mál, eins og það liggur núna fyrir þinginu, sé það slæmt að það sé nánast ómögulegt að gera á því nokkrar breytingar. Ég tel einfaldlega að þau lög sem Alþingi samþykkti í sumar ættu að fá að standa óbreytt og að ríkisstjórnin og stjórnarmeirihlutinn ætti einfaldlega að standa í lappirnar í því máli.

Eins og fram hefur komið er ekki líklegt að það verði. Forsætisráðherra og fjármálaráðherra hafa beygt höfuðið í sandinn fyrir Bretum og Hollendingum og hugsanlegri Evrópusambandsaðild ásamt fleiru. Mér finnst þetta dapurlegt. Ég er sjálfur persónulega ekki mikill stuðningsmaður þess að halda uppi málþófi, en þegar ég hef orðið vitni að því hvernig framkvæmdarvaldið fór með þingræðið og þá glæsilegu niðurstöðu sem þingið náði í sumar, gjörsamlega klúðraði því af einhverju sem virtist einfaldlega algjört áhugaleysi sýður stundum í mér reiði út af því. Alþingi Íslendinga er komið að þeim tímapunkti að það þarf að gera gangskör að því að rétta hlut sinn gagnvart framkvæmdarvaldinu og það gerist ekki með því að láta vaða yfir sig með þetta mál.

Ég sé ekki fram á með hvaða hætti er hægt að leysa þetta mál almennilega. Það hefur að vísu komið í ljós að hæstv. forseti þjóðarinnar lýsti því yfir þegar hann skrifaði undir lögin í sumar að hann gerði það að einhverju leyti vegna þeirra fyrirvara sem voru á málinu. Mig langar að biðja hv. þm. Ólöfu Nordal að gefa mér álit sitt á þeim yfirlýsingum og því lagalega samhengi sem þær hafa ef einhverjar eru (Forseti hringir.) og með hvaða hætti væri þá hægt að óska þess að forseti Íslands (Forseti hringir.) lagaði þetta mál fyrir okkur.