138. löggjafarþing — 35. fundur,  30. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[19:08]
Horfa

Ólöf Nordal (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að sú yfirlýsing sem forseti Íslands gaf þegar hann skrifaði undir Icesave-löggjöfina hafi enga aðra þýðingu en hugsanlega siðferðislega þýðingu fyrir þann forseta sem samdi hana. Um það hef ég einungis það að segja að ég á ekki frekar von á því að forseti lýðveldisins sé samkvæmur sjálfum sér ef litið er til þeirra ákvarðana sem hann hefur tekið á fyrri stigum.

Varðandi vinnuna í sumar skulum við ekki gleyma því að ástæðan fyrir því að við náðum þessu samkomulagi í sumar var auðvitað sú að ríkisstjórnin var klofin í málinu. Nú virðist sem ríkisstjórnin hafi bolmagn til að koma þessu máli í gegn og það gefur okkur mun takmarkaðri tíma til að rökstyðja fyrir ríkisstjórnarflokkunum að betur þurfi að gera. Þá finnst mér skipta verulegu máli í því að þeir sem halda því fram að við þurfum að samþykkja þetta strax komi með rök fyrir því af hverju svona mikið liggur á. Við eigum auðvitað að nýta þann tíma sem við höfum í máli sem varðar þjóðina svo miklu. Þegar menn tala um að þetta hafi tekið svo óralangan tíma er nú bara ár rúmt frá því að þetta mikla hrun varð og þetta er gríðarleg milliríkjadeila. Ég hygg að í mörgum öðrum löndum mundu menn hafa talið þetta hafa gengið afskaplega hratt fyrir sig. Ef við rifjum upp hvernig talað var hér í sumar þegar fyrra Icesave-málið kom inn í þingið virtist sú samningagerð, herra forseti, hafa gengið afar hratt fyrir sig. Af hverju þurfa menn að flýta sér eitthvað sérstaklega þegar svona er, sérstaklega þegar búið er að sýna fram á að það samhengi sem átti að vera við önnur mál virðist ekki vera lengur fyrir hendi? Seðlabanki Íslands er að draga á lánalínur frá Norðurlöndunum. Þetta mun ekki koma í veg fyrir það. Eigum við þá ekki að nýta tímann betur og reyna að tryggja hagsmuni íslensku þjóðarinnar betur til lengri tíma?