138. löggjafarþing — 35. fundur,  30. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[19:32]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Herra forseti. Mér finnst með ummælum hæstv. fjármálaráðherra um að hann megi nú ekki greina frá ýmsum atriðum í þessu samhengi öllu, að við séum í raun og veru aftur komin á upphafsreitinn. Hvernig var það? Jú, það átti ekki að sýna okkur alþingismönnum það samkomulag sem þá lá fyrir. Það átti að fá Ríkisendurskoðun til þess að túlka það einhvern veginn með einhverjum hætti ofan í þingheim. Við báðum um að það yrði gagnsæi í vinnubrögðunum, að fólk, þá ekki síst alþingismenn, hefðu aðgang að öllum upplýsingum í þessu máli, enda þurfum við að semja lög til þess að tryggja framgang þessa máls. Þar af leiðandi ber Alþingi á endanum höfuðábyrgð á þessu máli. Við fengum engar upplýsingar. Hvenær komu þessar upplýsingar? Jú, það var þegar þeim var lekið í kvöldfréttum ríkissjónvarpsins, þá sáum við fyrst hvernig samkomulagið við Breta, að mig minnir frekar en Hollendinga, leit út. Svona hefur þetta mál allt saman verið. Mér sýnist því miður að það sé ýmislegt sem við fáum ekki að sjá í þessu máli.

Við þingmenn höfum bent á í þessari umræðu að við höfum ekki fengið að sjá fundargerðir af hálfu samninganefndarinnar nema eina, þó voru fleiri fundir haldnir. Af hverju fá þeir aðilar, sem eiga á endanum að segja já eða nei við þessu máli, ekki allar upplýsingar um þetta mál? Eru einhver leyndarmál í gangi? Hvað er það sem við megum ekki vita? Ef við horfum á þá hagsmuni sem hér eru í húfi væri það algjört ábyrgðarleysi af okkar hálfu ef við mundum bara segja já og amen við því, við skulum bara afgreiða þetta mál án frekari umfjöllunar og án þess að við köllum eftir skoðunum úr samfélaginu frá okkar helstu sérfræðingum.

Við munum berjast fyrir því að þetta mál verði tekið upp í efnahags- og skattanefnd og í fjárlaganefnd og ég ber þá von í brjósti að við náum (Forseti hringir.) því fram og vonandi einhverjum breytingum á þessu máli. Ég ætla að ræða um (Forseti hringir.) getu Alþingis í síðara andsvari mínu, það sem þingmaðurinn spurði um.