138. löggjafarþing — 35. fundur,  30. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[19:34]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið og ræðuna. Ég vildi nú gjarnan að hann talaði skýrar þegar snýr að þessum orðaskiptum hér. Ég held að margir hlusti á þessa umræðu hér og spyrji: Hverju eru menn að reyna að ná fram í þessu? Málið er mjög einfalt. Menn eru að reyna að fá upplýsingar og vekja athygli á málinu. Það er nokkuð skrýtið ef menn þurfa að fylgjast með fjölmiðlum til þess að fá upplýsingar um málið. Það dugar ekki að spyrja hæstv. ráðherra eða stjórnarliða. Þeir svara ekki hér heldur fara þeir í fjölmiðla, það er þeirra leið. Þeir segja hreint og klárt að sumar ástæður þess að Icesave-málið verði að klárast sem fyrst í þinginu séu ekki þess eðlis að hægt sé að greina frá þeim í ræðustól Alþingis. Það er þá væntanlega hægt að greina frá þeim í samtali við fréttamenn og við fréttastofur. Maður hlýtur að spyrja sig: Hvar endar þetta? Maður er löngu hættur að velta því fyrir sér hvort menn ætli að fara þá í vegferð sem lagt var upp með varðandi gegnsæi. Ég veit að flestir eru búnir að gleyma því að þessir ríkisstjórnarflokkar sögðu að allt ætti að vera uppi á borðum. Hv. þingmaður fór ágætlega yfir það hversu mikið þetta hefur verið uppi á borðum eða þannig.

En nú er hæstv. fjármálaráðherra búinn að vera að kvarta undan því í allan dag að talað sé of lengi um málið. Hann getur ekki sagt frá sumu úr ræðustól Alþingis en hann fer í fjölmiðla til að gera það.