138. löggjafarþing — 35. fundur,  30. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[20:16]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Ástæða þess að ég kvaddi mér hljóðs um fundarstjórn þrátt fyrir að lítið hafi reynt á fundarstjórnina í þessari lotu, er sú að ég hafði þær grunsemdir að ekki yrði kveðið upp úr um það strax í upphafi fundar nú hversu lengi þessi fundur stæði. Enn á ný ítreka ég að það er fullur og algjör vilji hjá okkur þingmönnum í stjórnarandstöðunni að ræða þetta mál og við höfum lýst því yfir að við viljum gera það og í hörgul. En við höfum líka kallað eftir því að skipulag þingsins sé þétt og bætt, þannig að þingmenn hafi fyrir fram sig eitthvert skipulag sem hægt er að vinna eftir. Ég tel, virðulegur forseti, að það mundi bæta starfið og umræðuna í þinginu og gera það allt markvissara. Hluti af því felst einmitt í að sett sé fram með skipulegum hætti starfsáætlun bæði til lengri og skemmri tíma. Það hefur skort á, því miður, í allri þessari umræðu, að legið hafi fyrir hversu lengi skyldi fundað hvern dag. (Forseti hringir.) Nú er tækifæri til þess, virðulegi forseti, að bæta þar úr.