138. löggjafarþing — 35. fundur,  30. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[20:28]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Það er ánægjulegt að heyra það að hv. þm. Björgvin G. Sigurðsson virðir málfrelsið, hann er þá væntanlega ekki sammála hæstv. fjármálaráðherra sem hér talaði um að við værum búin að tala of lengi í þessu máli, værum búin að tala í 1.661 mínútu, að mig minnir, í ræðum um þetta mál. Það er ágætt. En hins vegar væri ágætt líka, frú forseti, ef stjórnarþingmenn gætu komið og varið sig í slíkri athugun sem hæstv. forseti mundi beita sér fyrir, vegna þess að yfirlýsingin tengist væntanlega líka getu stjórnarþingmanna til að beita sér í þinginu og framkvæma þau málefni sem þeim brennur á hjarta. Þetta er því ekki bara málefni stjórnarandstöðunnar heldur okkar allra sem hér sitjum og varðar það hvernig helstu ráðamenn þjóðarinnar horfa til þingsins og þeirra miklu brýnu verkefna sem þingið hefur með höndum. Það er hreinlega mjög dapurlegt, frú forseti, að virðingin (Forseti hringir.) fyrir því sé ekki meiri á borði fjármálaráðherra.