138. löggjafarþing — 35. fundur,  30. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[20:29]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Hæstv. fjármálaráðherra Steingrímur J. Sigfússon efast um getu Alþingis, hefur lýst því yfir í fjölmiðlum. Hann efast sem sagt um getu hæstv. forseta til að stjórna fundum Alþingis. Og ég verð að taka upp þykkjuna fyrir hæstv. forseta, því að mér finnst ekki vera svo mikið athugavert við stjórnunina hérna þó að ég gjarnan vildi sjá dagskránni breytt, og hef svo sem nefnt það áður að við færum að ræða einhver af málum hæstv. ráðherra, að í stað þess að vera að ræða hér endalaust um Icesave sem ekkert liggur á færum við að ræða núna mál sem skipta fjárlögin meira máli. Mér finnst þetta því mjög mikil atlaga framkvæmdarvaldsins og hæstv. fjármálaráðherra að forseta Alþingis, verkstjórn hennar, og Alþingi öllu.