138. löggjafarþing — 35. fundur,  30. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[20:31]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Það fer auðvitað ekkert hjá því að það setji að manni nettan hroll þegar maður heyrir ummæli eins og þau sem hæstv. fjármálaráðherra lét falla um þingið. Það þarf ekki að leita langt aftur í sögunni til þess að mönnum finnist þetta frekar óþægilegar setningar svo ekki sé meira sagt.

Ég minnist þess, frú forseti, að til virðulegs forseta var beint þeim tilmælum af hálfu hæstv. forsætisráðherra að gerð yrði sérstök rannsókn á ummælum ákveðinna þingmanna vegna þess að hæstv. forsætisráðherra leit svo á að það að hv. þingmenn voru ekki ánægðir með framgöngu hennar í Icesave-málinu jafngilti brigslum um landráð og vildi hæstv. forsætisráðherra láta kanna það sérstaklega.

Ég vil benda virðulegum forseta á að það er alveg ástæða til þess að forseti eigi orð við hæstv. fjármálaráðherra vegna virðingar þingsins, vegna þess hvernig hér er starfað, og ég bendi hæstv. fjármálaráðherra á í fullri vinsemd að svona sendingar til Alþingis Íslendinga, (Forseti hringir.) ekki bara stjórnarandstöðunnar heldur alls Alþingis, er eitthvað sem (Forseti hringir.) við viljum ekki sjá meira af.