138. löggjafarþing — 35. fundur,  30. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[20:37]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég ætla að leyfa hæstv. fjármálaráðherra að njóta vafans því að ég held að hann hafi mismælt sig. Ég held að hann hafi ætlað að segja „ríkisstjórnin“ en ekki „Alþingi“, ég tók því þannig. Ég ætla því að leyfa honum að njóta vafans, ég trúi því ekki að hann hafi sagt að hann hafi átt við Alþingi, ég held að hann hafi átt við hæstv. ríkisstjórn.

Ég vil hins vegar ítreka það sem ég hef svo sem sagt áður undir þessum lið að ég held að það væri mjög skynsamlegt hjá okkur að taka þessa umræðu af dagskrá og setja önnur brýnni mál til þess að fjalla um, þó að það væri ekki nema bara til þess að tappa aðeins af þrýstingnum af bæði stjórn og stjórnarliðum. Ég get ekki séð að okkur miði mjög mikið áfram og ég held að það væri mjög skynsamlegt að fresta 2. umr., vísa frumvarpinu til fjárlaganefndar og að umræðurnar um þessa stóru hluti sem standa út af fari fram þar. Ég held að það sé engin áhætta tekin af stjórnarliðum að gera það. Ég held að það væri mjög skynsamlegt að við mundum taka fyrir fjáraukalögin og fjárlögin og skattafrumvörpin og fara í þá vinnu. Ég held að það væri bara heillavænlegt fyrir okkur öll.