138. löggjafarþing — 35. fundur,  30. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[20:39]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Ég held að við gerum okkur öll grein fyrir til hvers þessi ummæli hæstv. fjármálaráðherra voru ætluð. Þetta er allt þáttur í því sem ríkisstjórnin hefur mjög reynt að halda á lofti, að draga upp þá mynd að umræður á Alþingi séu bara fyrir, að með því að ræða mál, ræða þetta gríðarlega stóra mál séu þingmenn bara að þvælast fyrir ríkisstjórninni og gera henni erfiðara fyrir að vinna vinnuna sína, eins fáránlegt og það nú er í ljósi reynslunnar af þessari ríkisstjórn.

Þess vegna tel ég fullt tilefni til þess, frú forseti, að virðulegur forseti áminni hæstv. fjármálaráðherra fyrir þessi ummæli, sem eru ekki til annars fallin en að draga úr virðingu þingsins og reyna að draga úr því og koma í veg fyrir að umræðurnar haldi áfram, heldur þvinga þingið í rauninni til þess að þagna.