138. löggjafarþing — 35. fundur,  30. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[20:43]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Þótt vera kunni að vera að hæstv. fjármálaráðherra hafi barist fyrir málfrelsi í þinginu í fyrra lífi sínu segir það ekkert um afstöðu hans núna enda hefur hann í flestum málum algjörlega snúið við blaðinu og því spyr maður sig: Því skyldi það ekki eiga við í þessu tilviki líka?

Það er mjög einfalt svar við þessum áhyggjum sem ráðherrann lýsti og það er að taka öll þau mál sem hann nefndi til umræðu, þess vegna að byrja bara strax. Það er ekkert því til fyrirstöðu af hálfu minni hlutans í þinginu að fara að ræða þessi brýnu mál og raunar höfum við hvatt mjög til þess og ýtt á að það verði gert. Ekki hafa fengist skýringar á því hvers vegna á í staðinn að halda áfram Icesave-umræðunni þegar þar eru ýmis mál óútskýrð, til að mynda er varða stjórnarskrána. Nú skilst mér að meiri hluti fjárlaganefndar hafi tekið það upp hjá sjálfum sér að leita eftir áliti hjá lögmönnum á því máli. Það álit hefur ekki birst enn þá.