138. löggjafarþing — 35. fundur,  30. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[20:45]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Þær eru að verða dálítið margar, skrýtnu uppákomurnar í þessari umræðu, en eitt af því sérkennilega var þegar hæstv. forseti tók sig til og ruddi mælendaskrána. Mér skilst að það hafi gerst einhvern tímann um helgina. Sjálfur hafði ég sett mig á mælendaskrá, á föstudaginn hygg ég að það hafi verið, en eins og menn vita teygðist dálítið úr umræðunni á föstudag og laugardag og mælendaskráin kláraðist ekki. Þegar ég fór að gæta að mælendaskránni í dag fann ég ekki nafnið mitt og komst þá að því að um það hafði verið tekin ákvörðun einhvers staðar að ýta burtu einhverjum tilteknum þingmönnum og skýringin hefði verið sú að þeir hefðu verið fjarstaddir við umræðuna á laugardaginn. Það er rétt, það átti við um mig. Ég var ekki hér á laugardaginn, en það breytti að sjálfsögðu engu um þann ásetning minn að taka til máls, svo fremi sem fundur stæði áfram um þetta mál sem var á dagskrá þegar ég kvaddi mér hljóðs.

Á laugardaginn var hér fundur á afbrigðilegum tíma, ekki á þeim tíma sem gert var ráð fyrir samkvæmt starfsáætlun Alþingis. Ég hafði öðrum skyldum að gegna sem þingmaður Norðvesturkjördæmis og var því ekki hér af þeim ástæðum. Það var öllum ljóst. Ég kann því ekki vel að síðan sé tekin um það einhver handahófsákvörðun að ýta mér út af mælendaskránni, en auðvitað hafði ég minn lýðræðislega rétt til að setja mig á mælendaskrá aftur. Svona hreinsanir eru ólíðandi og ég vil fá að vita hjá hæstv. forseta einhvern tímann undir þessari umræðu hvaða reglur gilda um það hversu lengi manni sé óhætt að vera utan þingsalarins áður en til þess kemur að manni sé ýtt út af mælendaskránni. Þetta eru vinnubrögð sem ég hef ekki heyrt um áður. Það getur verið að sakir elli minnar sé minni mínu eitthvað farið að förlast, en mig rekur ekki minni til þess að þessi vinnubrögð hafi verið viðhöfð. Þau eru kannski til marks um hið nýja Ísland, að maður eigi það á hættu ef maður bregður sér aðeins afsíðis að maður sé ekki lengur á mælendaskránni nema maður standi nánast og haldi í nafnið sitt á skránni. Þess vegna er mikilvægt að hæstv. forseti útskýri fyrir okkur hvað þurfi að koma til að hæstv. forseti leggist á „delete“-takkann að manni fjarstöddum.

Virðulegi forseti. Hæstv. fjármálaráðherra ákvað í kvöld í sjónvarpsfréttunum að greiða dálítið fyrir þingstörfum og til þess að auðvelda þau og skapa meiri sátt um þetta mál varpaði hann ákveðinni sprengju inn í umræðuna þegar hann lýsti því yfir að hann efaðist um getu Alþingis til að takast á við þau miklu mál sem við stæðum núna frammi fyrir. Inngrip hæstv. ráðherra áðan var ekki til þess fallið í sjálfu sér að útskýra hvað fyrir honum vakti, að öðru leyti en því að eins og við öll vissum stæðum við frammi fyrir risavöxnum verkefnum og að Alþingi ætti mörg mál óleyst. Við í stjórnarandstöðunni höfum hins vegar á hverjum einasta degi og hvað eftir annað, oft á dag, boðið upp á það að hnika til dagskránni til að hægt væri að taka til umræðu þau mál sem er virkilega knýjandi að klára núna fyrir jólin. Ég veit líka að vilji okkar til þess hefur komið fram á fundum þingflokksformanna og formanna stjórnmálaflokkanna. Því miður hafa menn ekki orðið við þessum óskum okkar, ekki tekið í okkar útréttu sáttarhönd, og þess vegna stöndum við hér og ræðum þetta mál sem er einfaldlega þess eðlis að það kallar á mikla umræðu.

Þetta er mikið álitamál og við skulum ekkert gleyma því hvernig þetta mál var vaxið í sumar. Í sumar lagði ríkisstjórnin fram frumvarp vitandi vits þótt hún vissi að ekki væri pólitískur þingmeirihluti fyrir því. Engu að síður var málinu lokið gagnvart viðsemjendum okkar. Frumvarpið var lagt fram á Alþingi. Það kom fram í þeirri umræðu að fyrir lá fyrirvari og andstaða svo margra þingmanna úr stjórnarliðinu að það var ekki meiri hluti fyrir því í þinginu. Engu að síður var málið lagt fram og við þær aðstæður tók Alþingi til sinna ráða eins og oft hefur verið sagt og breytti frumvarpinu, sneri því öllu í raun og veru á hvolf. Málið var þess vegna í rauninni afgreitt alveg í blóra við upphaflegan ásetning ríkisstjórnarinnar.

Eftir að Alþingi hafði komist að niðurstöðu, eftir að Alþingi hafði í raun og veru búið til nýtt frumvarp og gert að lögum, tók ríkisstjórnin það til handargagns, fór með það til viðsemjenda sinna erlendis og komst að samkomulagi sem var gjörsamlega á skjön við það sem Alþingi hafði sjálft samþykkt. Með öðrum orðum er farið, ekki einu sinni heldur tvisvar, fram gegn því sem vitað er að var vilji Alþingis á þeim tíma. Þetta eru gjörsamlega fáheyrð vinnubrögð, ef ekki einsdæmi, að ekki einu sinni heldur tvisvar sé reynt að fara fram með mál af hálfu framkvæmdarvaldsins og málin meðhöndluð þannig af hálfu þess að er algjörlega í blóra við vilja þingsins.

Það er mikil þverstæða í því fólgin þegar hæstv. fjármálaráðherra segir síðan að hann hafi efasemdir um að Alþingi ráði við verkefni sitt. Það blasir við hverjum manni að það er ríkisstjórnin sem ræður ekki við verkefni sitt. Ríkisstjórnin hefur komið þessu máli í það öngstræti sem það er í með vinnubrögðum sínum, með því að fara svona gjörsamlega gegn því sem er yfirlýstur og augljós vilji Alþingis. Þess vegna kallar hún yfir sig þær miklu umræður sem hér þurfa að fara fram og líka vegna þess að málin voru send út úr þingnefndum vanreifuð og án þess að þar hefði farið fram nægileg umræða um efnislega niðurstöðu málsins. Ekki einu sinni heldur tvisvar fer sem sagt ríkisstjórnin fram með þessum hætti.

Þetta rifjar upp fyrir mér gamla sögu sem ég heyrði einu sinni fyrir vestan af tveimur feðgum sem voru að glíma við það að slakta hrúti. Eitthvað tókst þeim þetta óhönduglega, sjálfsagt hefur gamla kindabyssan verið orðin löskuð og karlarnir ekki allt of lagnir við gripinn þess utan. Þeir dunduðu sér við að reyna að koma skoti í hausinn á hrútnum lengi dags þangað til var orðið kvöldsett og þeir feðgar orðnir dauðþreyttir. Þá segir sá eldri og reyndari við þann yngri: „Nú skulum við hætta þessu, sonur sæll, en byrja snemma í fyrramálið aftur.“ Þannig hegðar ríkisstjórnin sér gagnvart Alþingi. Þegar búið er að reka hana einu sinni heim, hún orðin uppgefin og lúin, segja hæstv. fjármálaráðherra og forsætisráðherra: „Nú skulum við bara byrja aftur snemma í fyrramálið.“ Þetta eru vinnubrögð sem geta kannski átt sér stað við að reyna að koma lífinu úr hrútnum en þetta á ekki vel við þegar í hlut á löggjafarsamkoma þjóðarinnar.

Hæstv. forsætisráðherra flutti sína einu ræðu í þessari umræðu eftir að hafa verið nánast brýnd til þess að taka til máls og skýra afstöðu sína. Fleygustu orðin úr þeirri umræðu voru þegar hæstv. forsætisráðherra líkti afleiðingum þess að samþykkja ekki Icesave-óskapnaðinn við það að hér mundi bresta á frostavetur. Til þess aðeins að gera mér grein fyrir því hvað hæstv. ráðherra var að ræða um, til hvers konar samlíkingar hún hefði gripið, fletti ég að gamni mínu upp á litlum fróðleik um frostaveturinn mikla þegar gerði svo mikla kuldatíð á Íslandi að frost fór víða á landinu niður í -30°, hafís varð víða landfastur og rak talsvert suður fyrir land og lokaði siglingaleiðinni fram í febrúar. Þetta er samlíkingin sem hæstv. forsætisráðherra dettur í hug þegar hún ræðir um afleiðingar þess að ekki verði orðið við óðagotsfrumvarpi hæstv. ríkisstjórnar um Icesave. Og hæstv. forsætisráðherra hefur örugglega ekki ætlað sér að leika veðurfræðing, heldur hefur hæstv. forsætisráðherra gripið til einhvers líkindamáls sem okkur er síðan ætlað að reyna að ráða í. Þetta er í samræmi við annað.

Hæstv. fjármálaráðherra segir að það sé ekki hægt að greina frá öllu úr ræðustóli Alþingis, það sé eitthvað óskaplega mikið meira sem undir búi sem geri það að verkum að okkur liggi svona gríðarlega mikið á. Var okkur ekki sagt þetta sama? Var okkur ekki sagt að við yrðum að klára Icesave, að öðrum kosti mundi Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn ekki afgreiða lánið til okkar? Þegar eftir því var gengið hjá mætum borgara hér í landinu kom auðvitað í ljós að þetta var tóm vitleysa. Þá var okkur sagt að nú væru það Norðurlöndin sem ekki vildu afgreiða til okkar lánin. Nú hefur hinn nýi seðlabankastjóri, minn gamli skólabróðir, greint frá því að hann sé að fara að sækja aurana til Skandinavíu og verði kominn með þá alla saman í hús fyrir áramót svo ekki er það það sem yfir okkur á að bresta. Þess vegna er mjög mikilvægt að hæstv. ráðherrar greini okkur skýrt frá því hvað undir niðri búi sem geri það að verkum að þeir telji svona brýnt að ljúka þessu máli undir eins.

Það er mjög búið að kalla eftir því í þessari umræðu að upplýst verði hvað hefði farið fram á þeim fjölmörgu fundum sem okkur er sagt að hafi átt sér stað, bæði þar sem menn hafi hist og eins símleiðis á milli forráðamanna okkar ríkisstjórnar og forsvarsmanna Bretlands og Hollands. Þegar okkur er sagt að efnahagslegur fimbulvetur muni ryðjast yfir okkur ef Icesave-málið verði ekki klárað hér og nú verður undanbragðalaust að greina okkur frá því hvað býr að baki, hvað gerir það að verkum að þessi ósköp liggi á.

Ég hef hlustað á þessa umræðu og það verður að segjast eins og er að það hefur verið fremur rýrt í roðinu sem frá hæstv. ríkisstjórninni hefur komið og lítt til þess fallið að undirstrika eða útskýra alvöru málsins öðruvísi en að það hefur reyndar verið gert með hótunum, og hótunum undir rós. Hæstv. ríkisstjórn verður að gera svo vel að útskýra hvað hér er að baki. Hæstv. ríkisstjórn getur ekki látið eins og þessi mál séu einhver prívatmál, mál sem okkur eru ekki gerð heyrinkunnug. Ef þetta er slík alvara verður það auðvitað að liggja fyrir. Og hvar liggur hótunin, hvað er að óttast?

Ég hef mjög kallað eftir því í þessari umræðu að stjórnarliðar tækju virkari þátt í umræðunni hingað til og hér eftir. Fyrir því eru gildar ástæður. Það er eðlilegt að í umræðum af þessu taginu skiptist menn á skoðunum, að mismunandi sjónarmið komi fram þannig að við sem höfum efasemdir um að þetta frumvarp eigi að samþykkja og erum raunar andvíg því að þetta frumvarp verði samþykkt getum þá skipst á skoðunum við þá hv. þingmenn og hæstv. ráðherra sem hafa önnur sjónarmið. Þá er því borið við að það sé búið að segja allt sem segja þurfi. Þingmenn hafi jafnvel tekið til máls hér í júlí og síðan hafi, að því er virðist, lítið nýtt komið fram. Þó er búið að gjörbreyta því frumvarpi sem þá var til umræðu, síðan er búið að leggja fram nýtt frumvarp eins og við vitum og síðast en ekki síst hafa komið hér fram mörg álitaefni þannig að hæstv. ríkisstjórn og þingmenn stjórnarliðsins geta ekki látið eins og ekkert hafi gerst. Þeir verða auðvitað að mæta þeim röksemdum sem hafa verið flutt fram um þessi mál.

Ég ætla að taka tvö, þrjú dæmi.

Hv. þm. Tryggvi Þór Herbertsson kom með afar athyglisverða ábendingu um vaxtakjörin og kostnaðinn af þeirri ákvörðun sem ríkisstjórnin hefur kynnt um að hafa fasta vexti upp á 5,5%. Forsendur gera ráð fyrir því að vextirnir yrðu lágir fyrsta kastið meðan peningar væru enn þá ódýrir í heiminum en síðan var forsendan sú að vextir mundu hækka línulega á greiðslufreststímabilinu, höfuðstóllinn mundi að sjálfsögðu lækka á þessum tíma og þess vegna mundu áhrifin af hærri vöxtum verða minni vegna þess að höfuðstóllinn væri orðinn lægri. Þetta eru gild rök. Hv. þingmaður benti á að þetta gæti sparað okkur ef ég man rétt 100 milljarða kr. eða þar um bil í vaxtakostnað. Það eru u.þ.b. 20–25% af fjárlögunum. Það sjá allir að það munar heldur betur um þessa upphæð.

Hæstv. forsætisráðherra var spurður um þetta mál. Hverju svarar hæstv. forsætisráðherra? Jú, hún hafði yfir sína uppáhaldssetningu sem er: Yfir þetta mál hefur verið farið.

Strákarnir í Seðlabankanum hafa reiknað þetta út og þeir hafa aðra skoðun. Ekkert frekar um þetta. Engin frekari rök. Hvergi gerð tilraun til að hrekja þær forsendur sem hv. þingmaður kom fram með. Hvergi gerð tilraun til að hrekja niðurstöðu hv. þingmanns, þvert á móti var þetta afgreitt með yfirborðslegum hætti, þó að í húfi séu 100 milljarðar kr.

Annað dæmi. Formaður Sjálfstæðisflokksins, hv. þm. Bjarni Benediktsson, vakti athygli á því að breytingar hefðu verið gerðar á lögum í tengslum við neyðarlögin í fyrrahaust sem gerðu það að verkum að hægt væri að snúa kröfum Breta og Hollendinga í íslenskar krónur með jákvæðum afleiðingum, m.a. væntanlega fyrir gengisstigið og þær mundu líka draga úr gengisáhættunni. Hefur verið reynt að bregðast við þessu? Nei, ekki neitt. Menn hafa bara stritast hér við að þegja í þeirri von að einhvern tímann mundi þessari umræðu ljúka og þá væri hægt að ganga til atkvæða í trausti þess að í þetta sinn hefði ríkisstjórnin meirihlutavald á því sem hún er hér að höndla með.

Það er furðulegt og forkastanlegt að ríkisstjórn sem einu sinni hefur verið gerð afturreka með sitt mál skuli eins og gerðist í sumar og fram eftir hausti síðan koma fram með mál sem er ekki betur undirbúið en raun ber vitni. Það er ekkert óeðlilegt við það að menn greini á um hluti eins og þá sem við erum hér að fjalla um en þá verðum við líka að gera þær kröfur til þeirra sem hafa önnur sjónarmið en þau sem hafa komið helst fram í þessari umræðu að þeir geri grein fyrir sínum sjónarmiðum.

Ég nefndi áðan örlítið hvernig þessi hræðsluáróður sem hefur verið hafður uppi hefði smám saman raknað upp, m.a. um það að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn mundi refsa okkur ef við samþykktum ekki Icesave-málið. Það er búið að sýna fram á hið gagnstæða. Forstjóri sjóðsins hefur borið þetta af sér og eins og við vitum hefur ákvörðun verið tekin í stjórn sjóðsins. Norðurlöndin eru hins vegar auðvitað í dálitlum vanda. Þau hafa verið borin mjög þungum sökum, m.a. af forstjóra Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.

Ég vil í þessu sambandi aðeins vekja athygli á afar athyglisverðri bloggfærslu eftir hv. þm. Ögmund Jónasson sem er fulltrúi Vinstri grænna í efnahags- og skattanefnd, en fulltrúar Vinstri grænna í nefndinni skrifuðu að mínu mati ákaflega athyglisverða umsögn um þetta mál sem því miður fékkst ekki rædd, hvorki í þeirri nefnd né í fjárlaganefnd og hefur ekki fengið nægilega athygli að mínu mati í umræðunni. Ég vakti að vísu nokkra athygli á þessu í fyrstu ræðu minni um þetta mál hér við 2. umr., en hv. þm. Ögmundur Jónasson bætti síðan við og fjallaði um hlut Norðurlandanna í öllu þessu samhengi. Hann vitnar til Strauss-Kahns, framkvæmdastjóra Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, sem hafði sagt að Norðurlöndin hefðu reist kröfur á hendur Íslendingum um samþykki við Icesave, afstaða þeirra hefði tafið afgreiðslu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins á áætlun fyrir Ísland. Síðan vekur hv. þingmaður athygli á því að Norðurlöndin hafi ekki mótmælt þessum alvarlega áburði framkvæmdastjóra Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, sem er mjög mikið umhugsunarefni, að Norðurlöndin skuli ekki hafa brugðist við þegar þau eru borin þeim þungu sökum að þau hafi bókstaflega níðst á sínum minnsta bróður, Íslendingum, í þeim erfiða leik sem við tökum nú þátt í.

Hv. þingmaður segir, sem mér finnst nauðsynlegt að komist til skila í þessari umræðu, með leyfi virðulegs forseta:

„Getur það verið að þetta komi ekki til með að hafa nein áhrif á samskipti okkar við „frændþjóðirnar“ á Norðurlöndum?

Geðleysi? Það þykir mér. Ég neita því ekki að eitthvað hafa kólnað mínar tilfinningar og hrifning á norrænu samstarfi. Það eru aðeins Færeyingar sem vaxið hafa í áliti.

En óheilindin hljóta að verða okkur til umhugsunar: Af hálfu Norðurlandanna. Af hálfu Evrópusambandsins. Af hálfu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Að ógleymdum óheilindum ríkisstjórna Bretlands og Hollands.“

Þetta er athyglisverð ábending af hálfu hv. þingmanns sem mér finnst ástæða til að við veltum fyrir okkur.

Eins og ég sagði í ræðu minni um daginn vakti það undrun mína og hneykslan að forustumenn ríkisstjórnar Íslands skyldu fara til fundar á Norðurlöndunum án þess að taka þessi mál þar upp á opinberum vettvangi og lesa forustumönnum þessara frændríkja okkar pistilinn yfir því framferði sem þeir hafa haft í garð okkar.

Virðulegi forseti. Þetta mál er vanbúið eins og það er lagt upp. Það er (Forseti hringir.) efnislega slæmt og því verður þess vegna að hafna.