138. löggjafarþing — 35. fundur,  30. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[21:07]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég verð að hryggja hv. þingmann með því að ég get ekki svarað þessari spurningu því að hæstv. fjármálaráðherra trúir mér aldrei fyrir leyndarmálum sínum. En kannski eru ágiskanir okkar jafngóðar hvor um sig. Það eina sem hefur komið hérna fram er að hæstv. fjármálaráðherra sagði á einhverjum tímapunkti að hann teldi að það að málið væri ekki afgreitt kynni að hafa áhrif á ákvörðun eða mat hinna svokölluðu matsfyrirtækja sem meta lánshæfi þjóða. Ég veit ekkert frekar um það.

Ég vek hins vegar athygli á því að okkur var líka sagt á sínum tíma að það að málið væri lagt fram gæti haft jákvæð áhrif í þessum efnum. En kjarni málsins er þessi: Ríkisstjórnin hlýtur að hafa vald á sínum eigin málum. Er það svo að matsfyrirtækin efist um að ríkisstjórnin hafi vald á þessu máli sem hún leggur fram núna í annað sinn? Er það þá orðið almennt álit umheimsins, alþjóðasamfélagsins eins og það er stundum sagt upp á fínan máta, að alþjóðasamfélagið, umheimurinn, trúi því að við séum með ríkisstjórn sem leggi fram og geri samninga í tvígang við aðrar þjóðir án þess að hafa til þess pólitískt umboð þingmanna sinna? Og að ríkisstjórnin leggi fram frumvörp án þess að hafa pólitískt umboð þingmanna sinna til að ljúka því máli?

Að vísu var sagt hérna í sumar svona til hátíðabrigða að þetta væru hinir nýju tímar og Alþingi ætti að hafa þetta mál í hendi sér. Ef það er þannig, er það væntanlega svo að Alþingi hefur fullt vald til þess að gera þær breytingar sem það kýs og auðvitað geta þingmenn gert tilraunir til þess, en þá verður að vera á bak við það pólitískur meiri hluti. Ég hef ekki orðið var við annað en að ríkisstjórnin hafi fullan ásetning um að afgreiða málið óbreytt. Gleymum því ekki að þannig var málið afgreitt úr fjárlaganefnd að ekki var gerð á því breyting, ekki stafkrókur, ekki hnikað til punkti eða kommu.