138. löggjafarþing — 35. fundur,  30. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[21:12]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Kjarni málsins er auðvitað sá að hér gilda lög. Við samþykktum lög í haust um það hvernig við vildum ganga til samninga við Hollendinga og Breta, ekki reyndar ganga til samninga við þá, heldur var þetta sú niðurstaða sem Alþingi komst að um að væri viðunandi til þess að geta lifað við þennan samning, Icesave-samning. Það var ekki svo að menn væru sérstaklega ánægðir með þá niðurstöðu en menn reyndu hins vegar að gera það besta úr þeim efniviði sem lagður hafi verið fyrir okkur. Þess vegna er það svo að þau lög sem eru í gildi þangað til þeim verður breytt, þ.e. þar til þetta frumvarp verður samþykkt ef það verður samþykkt, þá gilda þau lög sem við höfum frá því í september.

Ég spyr: Af hverju skyldu Bretar og Hollendingar vilja knýja á um það að segja upp þeim samningi sem þeir hafa gert við Ísland? Hvaða nauðir ættu að reka þá til þess? Þeir fengu allt út úr því sem þeir vildu. Þeir efnahagslegu fyrirvarar samkvæmt frumvarpinu eru burtu. Það er búið að gera lítið úr íslenskum dómstólum. Það er búið í raun og veru að gelda þá fyrirvara sem settir voru fram. Það væri hægt að tína þetta upp í mörgum, mörgum liðum. Sólarlagsákvæðið sem var sett varðandi greiðslurnar var afnumið. Sett var á sérstakt ákvæði sem felur í sér meiri greiðslur, til að mynda greiðslur á vöxtum á samningstímanum. Allt þetta var ekki í lögunum frá því í september. Þessu hefur núna verið breytt og ég get ekki ímyndað mér að Bretar og Hollendingar vilji nokkuð annað hvað varðar þetta mál en að það nái fram að ganga einhvern veginn, þó að það verði ekki á þessum sólarhring. Þeir hafa alla hagsmuni af því að þetta frumvarp verði að lögum. Enda munum við að í bréfi forsætisráðherra Bretlands sem lauk með þessum fleygu orðum „yðar einlægur Gordon“ var sérstaklega tiltekið og lýst yfir miklum stuðningi (Forseti hringir.) við það frumvarp sem hér liggur fyrir.