138. löggjafarþing — 35. fundur,  30. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[21:14]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Einari K. Guðfinnssyni fyrir mjög góða ræðu. Í ræðunni fjallaði hv. þingmaður töluvert um það hvernig ríkisstjórnin hefur aftur og aftur notað hræðsluáróður, dregið upp þá mynd að ef Icesave-frumvarp hennar yrði ekki afgreitt innan ákveðins tímafrests, tímafrests sem alltaf er svo færður til og búnar til nýjar dagsetningar, færi allt hér á versta veg á einn eða annan hátt. Hv. þingmaður rakti ágætlega mörg dæmi um þetta. Nú er lítið orðið eftir af þessu. Það er helst að matsfyrirtækin margumtöluðu, lánshæfismatsfyrirtækin séu nefnd til sögunnar og svo bætt við eða hvort það kom á undan, að það væri líka eitthvað leynilegt, eitthvað sem mætti ekki segja þinginu sem gæti gerst, þó að ég hafi ekki fengið skýringar á því hvað það er þrátt fyrir fullyrðingar um að forustumenn flokkanna hafi fengið slíkar skýringar. Ég held að þetta sé bara enn ein tilraunin til þess að beita hræðsluáróðri. En núna er hugmyndaflugið farið að skorta því að bankarnir eru farnir af stað. Nú síðast í kvöld heyrðum við að Kaupþing væri endanlega komið í eigu erlendra kröfuhafa. Hugmyndaflugið er ekki meira en svo að nú þarf að nefna leynileg atriði til sögunnar.

En vil ég sérstaklega nefna matsfyrirtækin. Nú eru allar líkur á því að lánshæfi ríkja, hugsanlega Íslands um leið, verði lækkað í framhaldi af þeim vandræðum sem Dúbaí hefur lent í. Því hefur verið spáð í fjölmiðlum að mörg ríki muni í framhaldinu lenda í slíkri lánshæfismatslækkun. Ef þetta gerist á Íslandi, er þá ekki hv. þingmaður sammála mér um að það sé þeim mun mikilvægara að við höfum þá þessa efnahagslegu fyrirvara til að koma í veg fyrir að hér þróist allt á versta veg ef við lendum í því að lánshæfi (Forseti hringir.) lækki vegna þess sem gerðist í Dúbaí?