138. löggjafarþing — 35. fundur,  30. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[21:18]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Þetta var mjög góð ábending frá hv. þm. Einari K. Guðfinnssyni varðandi hugsanleg áhrif á eignir Landsbankans. Þetta minnir enn og aftur á það að við höfum ekki hugmynd um hvað er í þeim sekk, hversu mikil verðmæti kunna að vera þar eða hvernig þau verðmæti kunna að sveiflast.

Jafnframt er það hárrétt, sem hv. þingmaður benti á, að nágrannar Dúbaís og Bretland hafa brugðist allt öðruvísi við vandræðum þess ríkis en vanda Íslendinga. Raunar hefur forsætisráðherra Bretlands, Gordon Brown, alveg frá því síðasta haust aftur og aftur haldið því fram í fjölmiðlum að við þessar erfiðu aðstæður þyrftu öll ríki heims að standa saman til að vinna á efnahagskreppunni. Framferði hans gagnvart Íslandi skýtur því mjög skökku við. Þetta ætti forsætisráðherra Íslands að sjálfsögðu að ræða við kollega sinn í Bretlandi.

Er nú ekki eðlilegt, þegar loksins er komið svar, þó að takmarkað sé, við bréfi hæstv. forsætisráðherra Íslands frá þeim breska, að beðið sé eftir svari við svarbréfi hæstv. forsætisráðherra og jafnframt að við bíðum eftir því að hinn langþráði fundur forsætisráðherranna eigi sér stað áður en við afgreiðum þetta mál þannig að ráðherrar okkar geti alla vega fengið eitt tækifæri til að útskýra stöðu okkar í málinu?

Ég vil jafnframt ítreka og taka undir það sem hv. þingmaður nefndi varðandi matsfyrirtækin. Það er stórfurðulegt að halda því fram að með því að auka skuldsetninguna og með því að afnema fyrirvarana, sem áttu að koma í veg fyrir mestu efnahagslegu hættuna, getum við verið að bæta matið sem við fáum frá þessum lánshæfismatsfyrirtækjum. Það er jafnfáránlegt og svo margt annað sem ríkisstjórnin hefur haldið fram í þessu máli, til að mynda að það mundi styrkja gengi krónunnar að skuldsetja okkur áfram í erlendri mynt.