138. löggjafarþing — 35. fundur,  30. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[21:21]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég veit ekki hvort það væri á mann leggjandi að bíða enn á ný eftir svari Gordons Browns því að hann virðist vera maður sem er afar seinn til svars. (Gripið fram í.) Kannski er hann feiminn við að setjast við tölvubendilinn og skrifa bréf. Svar barst tveimur og hálfum mánuði eftir að okkar hæstv. forsætisráðherra skrifaði kurteislegt bréf til þessa ráðherra og enn þá hefur hann ekki svarað því, sem er náttúrlega fáheyrt, hvort hann vilji setjast niður og ræða þessi mál við forsætisráðherra Íslands. Þetta er framferði sem er ekki líðandi en er svo sem ekki óþekkt frá hæstv. forsætisráðherra eftir því sem manni hefur skilist.

Þeir efnahagslegu fyrirvarar sem við settum í haust voru ekki settir að ástæðulausu. Þeir voru settir vegna þess að við gerðum okkur grein fyrir því að gífurleg óvissa var í kringum allt þetta mál. Í fyrsta lagi var fullkomin óvissa um það hverjar yrðu endurheimtur á eignum Landsbankans. Ég vakti athygli á því að fallið í Dúbaí gæti haft áhrif. Við vitum það ekki fyrir víst en maður óttast að lækkun á eignaverði í Bretlandi kunni að smitast yfir á eignir sem Landsbankinn á þar í landi og það gæti haft áhrif á endurgreiðsluhlutfall til okkar. Þetta sýnir með öðru hversu mikilvægt það er fyrir okkur að hinir efnahagslegu fyrirvarar, sem tengdust hagvaxtaraukningunni, séu til staðar óbrenglaðir.

Ég vil í öðru lagi undirstrika og vekja athygli á því að settur var inn milli 2. og 3. umr. — með pósitífum hætti, vegna þess að menn höfðu legið yfir fyrri hluta fyrirvaranna, komist að þeirri niðurstöðu að þeir nægðu ekki — nýr fyrirvari til viðbótar. Hann var þessi: Ef einhver upphæð yrði eftir um mitt ár 2024 ættu að fara fram viðræður, við værum með öðrum orðum ekki skuldbundin af því að greiða þær eftirstöðvar. Það væri þá eitthvað sem Bretar og Hollendingar yrðu að reyna að sækja á okkur og guð hjálpi þeim ef þeir reyndu það.

Nú hefur þessu verið snúið við og það er það sem undirstrikar þýðingu þess að þessum fyrirvörum sé viðhaldið en ekki að þeir séu þynntir út í hið óendanlega eins og frumvarpið sem við ræðum hér gerir ráð fyrir.