138. löggjafarþing — 35. fundur,  30. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[21:43]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Illugi Gunnarsson orðaði það svo ágætlega hér fyrr í dag þegar hann vitnaði í eitt af þeim ævintýrum sem við lesum gjarnan fyrir börnin okkar þar sem drengurinn hrópaði: „Úlfur, úlfur“. Það reyndist honum dýrkeypt á endanum.

Ég held að það væri mjög skynsamlegt af okkur stjórnarandstöðunni að bjóðast til þess að fara yfir þetta ævintýri með ríkisstjórninni á einhverjum góðum morgunfundi eða fyrir svefninn þannig að ríkisstjórnin átti sig á því að það á jafn vel við um Alþingi og þjóðina og drenginn í ævintýrinu að það gengur ekki að halda fram hlutum sí og æ sem ekki eiga sér stoð í raunveruleikanum.

Auðvitað er löngu búið að sanna að þetta á ekkert skylt við þau mál sem hv. þingmaður nefndi hér áðan, endurreisn bankanna hékk ekki á þessu máli. Norðurlandalánin héngu ekki og hanga ekki á þessu máli. Það er til skjalfest í norska þinginu í ræðu utanríkisráðherra Noregs um að lánið til Íslands er búið að vera tilbúið frá 28. október sl. eða frá því að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn samþykkti endurskoðun varðandi Ísland. Framkvæmdastjóri Alþjóðagjaldeyrissjóðsins hefur lýst því yfir að þetta tengist ekki með neinum hætti þannig að lánshæfismatið er nýja grýlan í þessu máli. Ef við horfum svo til Dúbaís þar sem sérkennilegt mál hefur komið upp, geta og munu háar skuldir ríkisins vitanlega lækka lánshæfismatið. Þessi grýla á því ekki rétt á sér frekar en aðrar sem hér er búið að hræða fólk með. Það sem þessi ríkisstjórn ætti að gera er að fara yfir málið, eins og hér hefur verið krafist, út frá öllum (Forseti hringir.) þeim ábendingum sem fram hafa komið.